148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er einhver menning sem fylgir því að vera með sterkar meirihlutastjórnir. Þær þurfa ekkert að semja sig í gegnum málin. Ráðherraræðið og foringjaræðið er sterkara í meirihlutastjórnum með góðan meiri hluta í þinginu. Minnihlutastjórnir þurfa að ræða sig í gegnum málin, semja og slaka til. En meirihlutastjórnir geta bara sagt: Heyrðu, við erum hérna með meiri hluta og við ráðum. Skítt með það þó að þetta séu fínar tillögur. Og skítt með það hver þörfin er. Okkur finnst þetta svakalega fínt en ætlum bara ekki að gera þetta núna, kannski seinna.

Ég vil gera athugasemdir við þá afsökun, leyfi ég mér að segja, hv. þingmanna sem mér fannst koma fram í umræðunni um fátækt hér í dag varðandi það af hverju ekki er búið að gera meira og af hverju ekki stendur til að gera meira í fjárlögunum. Svarið var að ekki hafi verið nægur tími. Hér er ég með nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar. Þarna eru alls konar mál, stór og smá, sem góður tími gafst til að vinna og breyta. En stöðu barnafólks þekkjum við. Og svo ég vitni enn og aftur í umræðuna um fátækt fyrr í dag: Það eru til greiningar, það er heil velferðarvakt sem er búin að leggja fram tillögur, svo eru til skortgreiningar UNICEF sem Hagstofan hefur komið að og guð má vita hvað. Við þekkjum það allt saman út og suður. Það ætti ekki að vefjast fyrir okkur að segja: Heyrðu, við förum nú ekki að láta barnabætur skerðast langt undir lágmarkslaunum á Íslandi. Nei. Það gerum við ekki. Látum það ekki spyrjast út um okkur. Það ætti að vera auðvelt, og að ýta á já-hnappinn þegar við greiðum atkvæði.