148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur breytingartillögum við hinn svonefnda bandorm, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018. Þær eru á þskj. 103 og 107.

Fyrra málið á þskj. 103 er mál sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt mikla áherslu á, og kannski fleiri, en markmiðið með þeirri breytingartillögu, sem í sjálfu sér er mjög einföld, er að leiðrétta mistök sem virðast hafa átt sér stað við setningu laga nr. 167/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nánar tiltekið c-lið 6. gr. þeirra laga.

Með ákvæðinu var nýju ákvæði sem ber númerið XL, væntanlega 40, til bráðabirgða bætt við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, í tilefni af dómum Hæstaréttar Íslands árið 2010 um ólögmæti gengistryggingar lánsfjár.

Samkvæmt ákvæðinu var gert ráð fyrir að vextir sem ákvarðaðir yrðu á inneign skuldara vegna ofgreiðslu af gengistryggðu láni skyldu ekki teljast til skattskyldra fjármagnstekna og þar af leiðandi verða undanþegnir tekjuskatti, þ.e. fjármagnstekjuskatti.

Af einhverjum ástæðum var gildistími þessa ákvæðis einskorðaður við tekjuárin 2010 og 2011, en síðan hefur það gerst að það hafa fallið fleiri dómar sem leitt hafa til frekari leiðréttinga og lækkunar eftirstöðva eða endurgreiðslu til skuldara og vegna þess hafa margvíslegar tafir orðið á endanlegu uppgjöri slíkra mála í sumum tilfellum.

Jafnframt eru enn óleyst ýmis álitaefni er varða uppgjör gengisbundinna lána og eru fjölmörg ágreiningsmál þar að lútandi enn til meðferðar hjá dómstólum og úrskurðarnefndum á stjórnsýslustigi.

Af þeim sökum var fyrningartími slíkra uppgjörskrafna framlengdur til átta ára frá 16. júní 2010 talið með lögum nr. 38/2014, um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Svo gætt sé samræmis og jafnræðis gagnvart skattborgurum er því nauðsynlegt að framlengja gildistíma umrædds ákvæðis um undanþágu vaxta af slíkum uppgjörskröfum frá fjármagnstekjuskatti.

Hér er því lögð til sú ofureinfalda breyting að takmörkun á gildistíma ákvæðisins, að binda það við þau tvö tilteknu ár sem áður var getið, verði felld niður og það verði þess í stað ótímabundið, enda er engin ástæða til slíkrar takmörkunar og heldur ekki útséð hvenær uppgjöri allra slíka mála verður endanlega lokið.

Þá er sömuleiðis lagt til að í þeim tilfellum þar sem vextir af slíkum uppgjörskröfum hafi verið skattlagðir á grundvelli ákvæða laga um fjármagnstekjuskatt verði það leiðrétt með endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þarna er um hreina samræmingu að ræða en málið er um leiðréttingu, eins konar lagasetningarmistök virðist hafa átt sér stað 2010.

Virðulegi forseti. Hitt málið er á þskj. 107. Það snýr einkanlega að málefnum öryrkja. Innsti kjarninn í þeirri breytingu er að uppbætur á lífeyri vegna kostnaðar, og ég legg áherslu á orðið „kostnað“, sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti til lífeyrisþega sem ekki getur framfleytt sér án hennar, þ.e. uppbótarinnar, og hér er vísað til laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og sömuleiðis uppbót til hreyfihamlaðs elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega vegna reksturs bifreiða með vísan til sömu laga um félagslega aðstoð, að þær sérstöku greiðslur verði undanþegnar skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þær greiðslur eru vegna kostnaðar sem hefur verið metinn af þar til bærum aðilum. Það er óeðlilegt að greiðsla á slíkum kostnaði sé skattlögð sem tekjur.

Ég ætla að víkja örlítið nánar að þessu máli og byrja á því að segja að hér er um að ræða mál sem Öryrkjabandalag Íslands hefur vakið máls á og lagt áherslu á. Það er þannig að allflestar af þeim uppbótum, styrkjum og öðrum greiðslum sem ætlað er að mæta sérstökum kostnaði, svo sem vegna hreyfihömlunar, lyfjakostnaðar og annars slíks, eru metnar sem tekjur og skattlagðar sem slíkar á grundvelli laga um tekjuskatt. Sú skattskylda hefur þau keðjuverkandi áhrif varðandi greiðslurnar, sem eru vegna kostnaðar sem hefur verið metinn af réttum aðilum, að samkvæmt innstu lögmálum laga um almannatryggingar eins og þær snúa að öryrkjum og öldruðum hefjast skerðingarnar og frádrættirnir. Þær greiðslur vegna kostnaðar valda þá skerðingu á öðrum bótum sem eru greiddar samkvæmt ákvæðum þessara laga. Þar má nefna húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning, framfærsluuppbót, barnabætur o.fl.

Lítum aðeins nánar á hvað felst í hugtakinu „örorka“. Hún er skert færni eða geta til vinnu vegna sjúkdóms, fötlunar eða slysa. Má vísa í því sambandi t.d. til 5. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Örorkulífeyri er ætlað að bæta launamissi vegna skertrar starfsgetu. Örorkulífeyrir og tekjutrygging eru samkvæmt þessu í lögum um almannatryggingar miðuð við skerta vinnugetu vegna skertrar starfsorku. Á hinn bóginn eru þær greiðslur sem einstaklingur fær á grundvelli laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, allt annars eðlis. Þær eru ekki ígildi launa eða bætur fyrir launatap vegna skertrar starfsorku heldur er þeim ætlað að koma til móts við einstakling sem býr við sérstök útgjöld á grundvelli sérstakra aðstæðna.

Við áttum okkur á því að með því að uppbætur, styrkir og aðrar greiðslur af þessu tagi til að mæta kostnaði vegna sjúkdóma og fötlunar eða sérstökum aðstæðum, eins og nánar er tilgreint, eru skattskyldar þá fær sá sem þeirra nýtur í fyrsta lagi ekki nema rúmlega 60% af þeirri fjárhæð sem metin hefur verið nauðsynleg uppbót svo að hann geti mætt þeim kostnaði sem fyrir liggur.

Það er rétt að árétta hin keðjuverkandi áhrif sem þessi skattlagning hefur í för með sér, að líta á þetta eins og þetta séu tekjur en ekki greiðslur til að mæta kostnaði. Þessar greiðslur eru reiknaðar honum sem tekjur, lækka húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning, barnabætur. Þetta á auðvitað sérstaklega við um tekjulága einstaklinga.

Lítum á þessar uppbætur. Þær falla í tvo meginflokka, annars vegar á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Hvað er þar? Það er eftirfarandi: Það er umönnunarkostnaður sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki, það er sjúkra- eða lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiða ekki, það er húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta, það er vistunarkostnaður á dvalarheimilum, stofnunum, svo á sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti eða reka sambærilega starfsemi og loks er þarna talinn rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar. Við erum að tala um að sérstakur stuðningur á grundvelli laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2003, vegna þeirra þátta sem hér hafa verið raktir eru metnir sem tekjur og skattlagðir sem slíkir og hafa þau keðjuverkandi áhrif að einstaklingurinn skerðist í bak og fyrir fyrir það eitt að fá þann stuðning, sem hann fær ekki nema réttir aðilar og sérfræðingar hafi metið það.

Þá má auðvitað spyrja hvað þetta myndi kosta. Við töluðum fyrr í dag um fátækt á Íslandi. Það er kannski ýmislegt í þeim lagabálkum sem hefur verið vikið að sem mætti færa til betri vegar, nákvæmlega til þess að starfa að því markmiði að útrýma fátækt á Íslandi sem á ekki að líðast í þessu stórríka velmegunarlandi.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Öryrkjabandalagi Íslands og koma fram í bréfi sem hefur verið sent ýmsum þingmönnum, þar á meðal þingmönnum í fjárlaganefnd Alþingis, námu skatttekjur ríkissjóðs vegna skattlagningar kostnaðargreiðslna af því tagi sem ég taldi upp í fimm liðum 46 millj. kr. Ætlar ríkissjóður að láta sig muna um það þegar fólk á í hlut sem á því þarf að halda með þeim hætti sem menn geta áttað sig á; súrefnissíur, rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar, heyrnartæki, annað af því tagi?

Vegna bílastyrksins til hreyfihamlaðra kemur fram í bréfi Öryrkjabandalagsins að greiddur tekjuskattur vegna þess liðar hafi á árinu 2016, það var auðvitað árið sem ég var að vísa til þegar ég nefndi 46 millj. áðan, numið 229 millj. kr.

Þetta eru ekki stórvægilegar fjárhæðir í rekstri ríkissjóðs, virðulegi forseti. Hér er um sannkallað réttlætismál að ræða og mikið tækifæri fyrir þá sem vilja beita sér gegn fátækt í landinu (Forseti hringir.) að styðja þetta málefni.