148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Áður en hann hóf ræðu sína var ég sannfærður um seinni breytingartillöguna enda meðflutningsmaður og þakka fyrir tækifærið til að vera þar.

Ég verð einhvern veginn sífellt þakklátari fyrir það að Flokkur fólksins hafi komist inn á þing vegna þess að fókusinn hjá þeim flokki um þessi mál er að mínu mati mjög verðmætur. Sá flokkur heldur áfram að benda á hluti sem kannski fara frekar undir radarinn hjá öðrum flokkum sem sérhæfa sig ekki jafn mikið í þessum tiltekna málaflokki þrátt fyrir að hafa nægan áhuga en aldrei tíma og er eins og það er, aldrei nægan alla vega.

Ég velti fyrir mér hinni breytingartillögunni, þ.e. þeirri sem kemur fram á þskj. 103 — og ég þakka þingmanninum í leiðinni fyrir að nefna töluna, það hjálpar fólki svo mjög að fletta henni upp á netinu — en þar er breytingartillagan þannig, ef ég skil hana rétt, að þegar lán eru leiðrétt þá verði bæturnar ekki skattlagðar sem tekjur, fjármagnstekjur.

Spurning mín er í stuttu máli sú: Er þessi breyting, sér í lagi þá b-liður efnislegu breytingartillögunnar, hugsuð afturvirkt? Mér finnst svolítið mikilvægt að það komi fram. Eins og oft er koma góðar hugmyndir fram í þessum fjármálum, banka-, vaxta- og skattamálum, sem fólk lætur sig dreyma um að hafa afturvirkt, en það getur síðan ekki verið afturvirkt, bæði vegna laga og vegna þess að stundum er það ekki endilega sanngjarnt. Fólk á nú að geta búist við að hverju það gengur, það væri ágætt að vita að hverju það gengur samkvæmt lögum. Í stuttu máli er spurningin: Er b-liðurinn hugsaður afturvirkt þannig að fólk sem fékk sín mál dæmd árin 2012, 2013, 2014 og upp að 2017, það fólk myndi njóta afraksturs við þessar tilteknu breytingar?