148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Ég verð að viðurkenna að það setur mig í pínulítinn bobba hvað varðar það að styðja þetta mál. Ég styð málið efnislega. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Þetta hljóta að vera mistök. Fólk getur ekki í alvöru talað hafa ætlað sér að þetta virkaði, eins og hv. þingmaður lýsir að það virki. Þetta hlýtur að vera einhver handvömm að minnsta kosti miðað við minn skilning á málinu hingað til. Mér finnst mikilvægt að það komist á hreint áður en við greiðum atkvæði um þetta hvort það sé hugsað afturvirkt eða ekki, jafnvel óháð því hver niðurstaðan á endanum verði. Mér finnst mikilvægt að fólk viti það fyrir fram þegar við greiðum atkvæði hérna.

Eins og ég segi, í fljótu bragði myndi ég greiða atkvæði með þessu máli, en ég myndi þá helst vilja vita hvort það væri afturvirkt og hvort það væri mögulegt að hafa það afturvirkt. Það má vel vera að hægt sé að gera þetta afturvirkt miðað við einhvers konar réttindi þarna. En þegar ég hugsa um það upphátt þá dettur mér fleira í hug sem gæti alveg réttlætt það að hugsanlega væri þetta afturvirkt og allt í góðu með það. En mér finnst óþægilegt að vita það ekki fyrir víst sjálfur, bæði hvort það sé yfir höfuð heimilt og sömuleiðis hvort tillagan feli það í sér. Ég hygg þó og vil taka fram að þingmenn hafa mikla oftrú á svokölluðum lögskýringargögnum, þau séu hluti af lögum. Það er ekki alveg þannig.

Það er mikilvægt að við atkvæðagreiðsluna — ég myndi leggja til við flutningsmann þessarar breytingartillögu að hann geri vilja sinn í því sambandi skýran þannig að ef þetta verður samþykkt og kæmi upp vafamál þá væri vilji löggjafans skýr, þ.e. þegar við greiðum atkvæði um þetta, sem ég geri ráð fyrir að verði á morgun.