148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara aðeins yfir breytingartillögurnar sem liggja fyrir. Síðan ætla ég að halda stuttan lærðan pistil um vinnubrögð og skort á þeim.

Fyrst vil ég reyndar nefna að ég er sjálfur á nefndaráliti minni hlutans en það eru tvær breytingar í nefndaráliti meiri hlutans, önnur varðar vaxtagjöld og hin gjaldtökuheimild framhaldsskóla fyrir efniskostnaði.

Í meirihlutaálitinu, fyrri hlutanum, er lagt til að b-lið 3. mgr. 57. gr. b í tekjuskattslögunum, þeim lagabálki, verði frestað, gildistökunni verði frestað, hún tekin út. Hugmyndin var sú, eða alla vega komst sú skoðun á kreik og er orðin mjög rótgróin víða, að ákvæðið bryti í bága við EES. Hins vegar hefur ESA ekki minnst á þetta að eigin frumkvæði og því ekki líklegt að þetta verði til neinna teljandi vandræða, alla vega ekki strax. En þetta virðist fólki finnast mjög skýrt að sé tilfellið, þannig að það var lagt til að þetta myndi falla brott og að sú breyting tæki gildi nú um áramótin.

Markmiðið er í sjálfu sér göfugt, að hindra þunna eiginfjármögnun, ef ég skil rétt, en hins vegar hefur þetta þau áhrif að það hindrar líka lögmæt endurlán móðurfyrirtækis til dótturfyrirtækis sem eru bæði innlend. Það er ekkert skattalegt hagræði af því, það er einungis rekstrarlegt hagræði af því að stór eining taki lán á einhverjum ákveðnum kjörum og láni síðan dótturfyrirtækjum. Það snýst einfaldlega um, eftir því sem ég skil best, lán milli dóttur- og móðurfélags en ekki skatta.

Hins vegar er á leiðinni reglugerð sem mig minnir að heiti BRRD, sem á að taka á öllum svona málum. Meiri hlutinn leggur því til að því verði frestað að fella þetta ákvæði brott. Þá mun annar lagabálkur, sem vissulega kemur frá EES og hlýtur þá væntanlega að vera í samræmi við samninginn, taka við því markmiði sem þessu ákvæði er ætlað að ná.

Það er svo sem ekki mikið meira að segja um það nema að það er ágætistilraun eða æfing í þingmennsku og lögfræði að vasast aðeins í lögum um tekjuskatt. Það eru 57 bráðabirgðaákvæði í tekjuskattslögunum. Þegar ég segi b-liður 3. mgr. 57 gr. b er ég ekki að tala um neitt sérstaklega flókið í samhengi við tekjuskattslög, þau eru svakaleg. Það var ákveðið ævintýri að fara á stúfana í þessu tiltekna máli, þótt ég hafi reyndar á endanum náð því háleita markmiði að komast til botns í því hvað þetta þýddi allt saman. Ég held að ég hafi náð því markmiði, alla vega nógu vel til að geta tekið undir þetta og greitt atkvæði með breytingartillögunni.

Hin tillagan sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans varðar að framlengja gjaldtökuheimild framhaldsskóla til efniskaupa, sem er í sjálfu sér göfugt markmið. Framhaldsskólar sem kenna iðngreinar þurfa oft að skaffa efni í þær greinar. Það var sett í lögin þannig að þeir mættu vissulega taka eitthvert gjald fyrir það en árið 2009, þegar hér varð hrun eins og frægt er orðið, var sett bráðabirgðaákvæði sem gaf þeim auknar heimildir til gjaldtöku. Þetta var gert á forsendum þess að það varð hrun. Nú er ekki hrun. Núna erum við þvert á móti í því sem virðist enginn ágreiningur um að sé toppur hagsveiflunnar. Það eru ekki margir í þessum sal eða jafnvel fyrir utan sem búast við því að efnahagslega verði hlutirnir mikið betri á Íslandi en núna. Allar líkur eru á að hagsveiflan fari alla vega ekki lengra upp. Hún gæti staðið í stað, vonandi, en líka farið niður. Hvað sem því líður eru forsendur fyrir þessu bráðabirgðaákvæði gersamlega brostnar. Talandi um forsendubresti. Það er engin ástæða til að hafa þetta ákvæði lengur.

Í umfjöllun nefndarinnar spurðumst við fyrir um hver væri verðmiðinn á því einfaldlega að hætta að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði og fjármagna efniskaupin úr ríkissjóði eins og meginefni laganna gerir ráð fyrir, ef ekki er tekið tillit til bráðabirgðaákvæðisins sem núna er lagt til að verði framlengt. Talan sem við fengum var 300 milljónir. Það var frekar skýrt. Ég spurði sérstaklega hvort það væri einfaldlega þannig að ef við skelltum 300 milljónum í þetta færi vandamálið burtu og minn skilningur var að svo væri.

Ég sendi því í snatri tölvupóst á þingmann okkar í fjárlaganefnd og stakk upp á að við legðum það til. Við leggjum það til í breytingartillögum okkar við fjárlög að aukin verði útgjöld til framhaldsskólanna til að standa að þessum efniskaupum. Þá þurfum við ekki að framlengja þetta ákvæði. Þess vegna er ég á móti því. Ég vil að lögin standi eins og löggjafinn ákvað á sínum tíma að þau skyldu vera og ákvað einungis tímabundið, og hefur ákveðið tímabundið í átta ár, að sveigja frá því sem Alþingi ákvað á sínum tíma. Mér finnst það í eðli sínu óeðlilegt að vera alltaf að framlengja einhver bráðabirgðaákvæði einungis vegna þess að Alþingi virðist ekki geta komist að niðurstöðu.

Ef þingmenn vilja hafa þetta þannig að þetta bráðabirgðaákvæði verði varanlegt ættu þeir að leggja það til. Ég myndi greiða atkvæði á móti því. En mér finnst það skárra en að við séum alltaf að setja svona mikinn tíma í bráðabirgðaákvæði þegar við gætum talað um efnið eins og það er. Við fókuserum ekki nógu vel á efnisinnihald bráðabirgðaákvæðisins sjálfs, finnst mér, vegna þess að það er bráðabirgðaákvæði. Málsmeðferðin er alltaf svo mikill hluti af þessu, verður fyrirferðarmikil í umræðunni og sóar tíma að mínu mati. Ég ætla svo sem ekki að hafa mikið fleiri orð um það.

Í nefndaráliti minni hlutans eru lagðar til breytingar á barnabótum, hækkanir á þeim, þannig að þær byrji ekki að skerðast langt undir lágmarkslaunum, sem er náttúrlega fráleit staða. Ég styð þær að sjálfsögðu, enda er ég hluti af minni hlutanum. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fór ágætlega yfir það áðan í ræðu. Síðan er einnig tillaga um vaxtabætur, sem ég styð að sjálfsögðu líka, verandi hluti af minnihlutanum.

Ég kemst ekki hjá því við þetta tækifæri að ræða aðeins hvernig við förum með breytingartillögu hérna. Ég nefndi þetta aðeins í andsvari áðan við annan hv. þingmann en langar að fara ítarlega í það.

Á Alþingi horfir fólk og býst við að við séum hér að rökræða hvert við annað, færa rök, koma með gögn, tillögur og hugmyndir og greiða atkvæði um tillögur út frá sannfæringu okkar — reyndar yfirleitt út frá mjög alvarlegum misskilningi á 48. gr. stjórnarskrárinnar en það er önnur saga, ég fer út í þá sálma seinna. En það er alla vega væntingin, væntingarnar til Alþingis eru að við greiðum atkvæði samkvæmt sannfæringu okkar. Og ef ég tel saman, eins og ég nefndi áðan, þá þingflokka sem standa að eða styðja minnihlutaálitið þar sem koma fram breytingar á vaxtabótum og barnabótum og bæti við Vinstrihreyfingunni – grænu framboði þá fæ ég 39 þingmenn af 62. Það er þokkalegur meiri hluti. Ég hef verið í stjórnarminnihluta þegar það var 38 manna ríkisstjórn og það er almennilegur meiri hluti. 39 manns er fínn meiri hluti á Alþingi.

Ég hefði því haldið að þessi tillaga færi í gegn. Ég er algerlega sannfærður um að fullt af fólki sem fylgist með Alþingi skilur ekkert í þessu. Ég þori að fullyrða það vegna þess að ég skil alla vega ekki allt í þessu. Ég er með tilgátu um hvers vegna þetta er svona. Það segir sig sjálft að þetta er fráleitt. Það segir sig sjálft að málsmeðferð okkar á fjárlögum og bandormi og tillögum og atkvæðagreiðslum og dínamíkin milli meiri hluta og minni hluta er á einhvern hátt biluð. Það er eitthvað bilað í kerfinu sem við notum hérna. Mér finnst það kristallast svo skýrt þegar það hlýtur að vera meiri hluti fyrir þessari tillögu. Ég get ekki trúað öðru.

Hvað er þetta? Við höfum mörg kvartað rækilega og réttilega yfir tímaskortinum hérna. En það útskýrir ekki þetta tilfelli vegna þess að tillagan er svo skýr og einföld. Hún er rökstudd, verðmerkt. Það er vitað hvað þetta kostar, vitað að þetta er ekkert ný umræða. Barnabætur eru ekki ný umræða. Það kemur ekki Vinstrihreyfingunni – grænu framboði á óvart að sjá breytingu á barnabótum. Það eina sem kemur á óvart er að þau styðja ekki breytinguna. Hvers vegna ekki? Er það vegna þess að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er troðfull af fólki sem vill það ekki? Nei, ég held ekki. Ég held að það sé vegna þess að sú menning og þróun hefur átt sér stað á Alþingi að atkvæðin snúast meira um þann pólitíska veruleika að viðhalda ríkisstjórnum en um málefnin sjálf. Ég legg til að það sé vandamálið. Það er algerlega á skjön við væntingar borgaranna og ekki í neinu samræmi við það sem við hv. þingmenn ætlum okkur þegar við förum í framboð í fyrsta sinn.

Öll fórum við einhvern tíma í framboð í fyrsta sinn. Ég er alveg sannfærður um að við fórum öll með eldmóði og ætluðum aldeilis ekki að verða eins og hinir þingmennirnir. Eftir stendur að við erum þingmenn. Við erum núna hinir þingmennirnir fyrir þeim sem bjóða sig fram og ætla aldeilis að sýna okkur hvernig eigi að gera hlutina.

Þegar við sýnum þeim einstaklingum hvernig við gerum hlutina í málum eins og þessum, finnst mér það draga úr virðingu Alþingis. Mér finnst það draga úr tiltrú á Alþingi og finnst það rangt. Mér finnst ekki að Alþingi eigi að virka svona.

Það er ýmislegt sem mætti bæta við þetta ferli en mér finnst þetta vera eitt skýrasta dæmið um nauðsyn þess. Það er mikið af fólki á hinu háa Alþingi sem finnst þetta ágætt, myndi kannski óska þess að minni hlutinn talaði minna. Og minni hlutinn óskar þess kannski að stjórnarmeirihlutinn væri með minna valdabrölt og valtaði síður yfir minni hlutann. Það eru alls konar svona óskir. En mér finnst það kristallast í þessu að ákvörðunarferlið sem við búum við, vinnum eftir, er sjálft á einhvern hátt bilað. Það finnst mér mjög alvarlegt. Við förum hér með fjármál ríkisins. Ég get ekki annað en lagt til að þetta sé hluti af ráðherraræðinu.

Nú fer ég kannski yfir í gamla sálma sem sumir kannast við, sem er andstyggð mín á meirihlutastjórnum. Bara svo það sé á hreinu þýðir það að vera með minnihlutastjórn ekki að minni hlutinn ráði. Meiri hlutinn ræður alltaf. Það er eðli lýðræðisins, hvort sem manni líkar það betur eða verr. En samskipti og dýnamík milli ríkisstjórnar og Alþingis í dag, vegna þess að við erum alltaf eða næstum því alltaf með meirihlutastjórnir, er þannig að atkvæðin hérna snúast um að viðhalda framkvæmdarvaldinu, sem er ekki okkar fyrsta hlutverk. Fyrsta hlutverk okkar er að setja góð lög. Til dæmis þegar við erum með það sem virðist vera 39 manna meiri hluti. Sá meiri hluti ætti að ráða. Er það ekki? Ég held það.

Mér hefur löngum fundist áhugavert hvernig misjafnir flokkar lenda í stjórn og stjórnarandstöðu en þegar maður lítur á atkvæðatöfluna sér maður alltaf þetta munstur, línan er alltaf stjórn og stjórnarandstaða en ekki, segjum Viðreisn alltaf með Sjálfstæðisflokki eða Samfylking alltaf með Vinstri grænum. Af hverju ekki? Væru það ekki eðlilegri línur? Nei, þær fara eftir stjórnarmynstrinu. Það er út af þeim galla sem ég er að tala um.

Ég legg því til að við notum þetta tækifæri sem við höfum núna — því að við fáum smá frið frá þingstörfum eftir 1, 2, 3 kannski 5–10 daga, eitthvað svoleiðis, sjáum til — og veltum aðeins fyrir okkur hvernig standi á því að við sjáum þessa atkvæðatöflu eins og hún er með jafn fjölbreytta flokka í ríkisstjórnarsamstarfi og jafn fjölbreytta flokka í minni hluta, bersýnilegan meiri hluta fyrir góðri tillögu sem fellur vegna þess að ríkisstjórnin verður að ná sínu fram hvað svo sem það er á hverjum tíma.

Ég legg þetta til, virðulegu forseti. Og að lokum, vissulega, að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.