148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill nú svo til að ekki fyrir svo löngu síðan var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá, stundum kallaðar tillögur stjórnlagaráðs, ég kalla það stundum tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna þess að sú nefnd lagði fram mál grundvallað á þeim tillögum á 141. þingi. Í 65. gr. í þeim tillögum er fjallað um málskot til þjóðarinnar. Þá geta 10% kjósenda sett mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú útfærsla finnst mér einföldust. Hún er hræódýr, einföld og svo framvegis. Ég sé enga ástæðu til að gera það ekki þótt stjórnarliðar virðist alltaf vera logandi hræddir við það. Hmm, af hverju ætli það sé?

Það er líka til hugmynd um þriðjunginn, sem notuð er í Danmörku. Þegar ég fletti því upp á sínum tíma hafði sú leið einungis einu sinni verið notuð, einhvern tíma á sjötta áratug síðustu aldar eða svo. Það voru þrjú mál, þau voru öll felld í þjóðaratkvæðagreiðslu og mér að vitandi hefur það ekki verið notað síðan einmitt vegna þess að áhrifin af því eru ekki þau að allt fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Áhrifin eru þau að fólk vandar sig betur. Það talar meira saman, reynir að finna málamiðlanir þannig að ekki þurfi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég skil alveg þann metnað stjórnmálamanna að vilja ekki setja hlutina í þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er þess vegna sem það þarf að vera stjórnarskrárbundið ákvæði, þ.e. vegna þess að stjórnmálamenn vilja það ekki. Þjóðin verður að hafa þennan rétt.

Ég held líka að það myndi umbylta stjórnmálum almennt til hins betra að hafa slíkt ákvæði. Í 92. gr. sömu tillagna er líka öðruvísi farið með vantrauststillögur. Þá þarf að leggja til forsætisráðherra á sama tíma og vantraust er samþykkt, eða borið upp. Það er ekki alveg óumdeild klausa en það myndi vissulega breyta dínamíkinni í kringum það hvernig við förum með valdið. Allt þetta væri til umræðu ef það ágæta og mikilvæga mál væri oftar til umræðu hér, sem það mætti vissulega vera.

Á síðustu sekúndum vil ég nefna að í sambandi við fjárlög sérstaklega og bandorm held ég að við þurfum ekki endilega stjórnarskrárbreytingu til að standa betur að verki. Ég held að við þyrftum bara að búa til einhvern vettvang þar sem gögnin eru tekin saman, vitaskuld á tölvutæku formi, þannig að auðveldara væri fyrir þingmenn að vinna saman að sameiginlegum tillögum. (Forseti hringir.) Ég held að þetta sé eitthvað sem við ættum að reyna, þessir tveir flokkar, og vonandi fleiri næst þegar fjárlög eru til umræðu, ef út í það er farið.