148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018. Mig langar svolítið, eins og ræðumenn hér á undan mér, að auglýsa eftir þeim breyttu vinnubrögðum sem boðuð eru af hálfu nýrrar ríkisstjórnar og velti fyrir mér hvar þau sé að finna eða hvenær þess sé að vænta að sú breyting sem boðuð er eigi sér stað. Það kemur manni dálítið á óvart í þessum málum þegar það er gjarnan svo — eins og hv. þm., ja, það er stolið úr mér í augnablikinu, Oddný G. Harðardóttir, kom að máli sínu — að minni hluti hverju sinni sest yfir mál og tekur efnislega afstöðu til þeirra og greiðir oftar en ekki atkvæði, hygg ég, með hinum ýmsu tillögum stjórnarmeirihluta á hverjum tíma og breytingartillögum sem settar eru fram af hálfu stjórnarmeirihluta, en sami stjórnarmeirihluti virðist greiða atkvæði gegn breytingartillögum minni hluta alveg kategorískt, alveg óháð efni þeirra eða hvernig þær tillögur samrýmast t.d. stefnuáherslum einstakra flokka sem þann meiri hluta mynda. Þetta hlýtur að vera dálítið umhugsunarefni.

Hér hefur verið rætt einmitt um þetta samtal minni hluta og meiri hluta í afgreiðslu t.d. fjárlaga og þessa frumvarps sem hluta þar af. Það samtal virðist satt best að segja vera afskaplega einhliða og lítið. Boðaðar eru stefnuáherslur meiri hlutans og það er alveg sama hvað minni hluti hefur fram að færa, það er í raun og veru ekkert efnislega rætt. Ekki er gerð hin minnsta tilraun til þess af hálfu meiri hlutans að setja sig eitthvað sérstaklega inn í þau mál eða gera einhverja tilraun til málamiðlana eða sjá hvort með einhverjum hætti mætti koma til móts við þau sjónarmið sem þar er verið að færa fram. Hér eru til umræðu m.a. tvær breytingartillögur sem minni hlutinn hefur sameinast um, sem eru annars vegar breytingar á tekjuviðmiðum í skerðingu barnabóta og svo aftur sérstök hækkun á eignaviðmiðum til skerðingar vaxtabóta.

Það sem vekur kannski furðu er einmitt, eins og hér hefur áður komið fram í umræðu um málið, að ef flokkar væru að taka einfaldlega afstöðu til þessa máls út frá stefnumálum sínum og kosningaloforðum, umræðu um mikilvægi jöfnunar o.s.frv., þá myndi vera býsna góður meiri hluti í þinginu fyrir þessum breytingartillögum. En við höfum þegar séð í atkvæðagreiðslu að svo virðist ekki vera, í það minnsta að hluta, og ég óttast að við munum sjá það í atkvæðagreiðslum síðar að hið sama sé upp á teningnum núna, það muni ekki reynast neinn vilji af hálfu stjórnarmeirihlutans til að koma þarna til móts og maður veltir fyrir sér af hverju.

Vísað er til þess að aðstæður séu óvenjulegar, það sé knappur tími. Mögulega væri þetta einhvern veginn öðruvísi ef við værum hér í hefðbundnum takti með þrjá mánuði eða svo undir í fjárlagaumræðu. Mér er það til efs. Ég held að þetta séu bara nákvæmlega sömu vinnubrögð og hafa alltaf verið ástunduð af meiri hlutum, að það er lítið sem ekkert hlustað á kröfur minni hlutans nema þá og því aðeins að minni hluti grípi til málþófs eða dragi tíma þingsins svo á langinn að þvinguð sé fram sú staða að stjórnarmeirihluti verði með einhverjum hætti að koma til móts við það til að greiða fyrir lúkningu mála. Það eru alveg skelfileg vinnubrögð að horfa upp á og gríðarleg vonbrigði að sjá í raun og veru. Það eru engir tilburðir af hálfu nýrrar ríkisstjórnar, nýs stjórnarmeirihluta, til að breyta þessu þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um hið gagnstæða.

Ég lýsi því eftir þessum breyttu vinnubrögðum. Ég vona að þau skili sér þá alla vega á vorþingi ef ekki á að sýna nein merki um það hér og nú.

Þetta hlýtur að vekja upp spurningu þegar við erum alltaf að ræða í samhengi þessar tvær tillögur, þ.e. varðandi vaxtabætur og barnabætur sérstaklega, að almenn umræða er, ekki bara hér á landi heldur um öll Vesturlönd, um mikilvægi jöfnunar, hversu mikilvægur jöfnuðurinn sé í þessum samfélögum og hvernig við sjáum í raun og veru samræmið í fylgni milli jöfnuðar og stjórnmálalegs stöðugleika í þessum sömu löndum. Það sem við sjáum í raun og veru þar sem ójöfnuður er mikill verður miklu meiri pólitísk ólga, miklu meiri hætta á því að einhvers konar popúlísk stjórnmálaöfl komist til valda, jafnvel mjög öfgakennd stjórnmálaöfl. Grafið er beinlínis undan grunnstoðum, rótum, lýðræðisins ef ekki er gætt að jöfnuði á hverjum tíma. Þetta er ekki lengur bara spurning um einhverja hægri eða vinstri pólitík. Þetta snýst um það hvernig við tryggjum sem bestan stöðugleika í stjórnmálum þessara ríkja til lengri tíma litið.

Þess vegna er gríðarlega mikilvægt og á að taka þá umræðu alvarlega þegar breytingartillögur sem þessar koma fram sem augljóslega snúa að því að styrkja tekjudreifingarhlutverk skattkerfisins okkar og er í raun og veru ekki að gera neitt annað en tryggja það að rótgróin stuðningskerfi skattkerfisins, þ.e. barnabætur og vaxtabætur, skili þeim markmiðum sem þeim upphaflega var ætlað að gera, þ.e. að styrkja lágtekjuheimili, einstaklinga og fjölskyldur. Það sem augljóslega hefur gerst í tilvikum beggja þessara bótaflokka, ef svo mætti kalla þá, er að grafið hefur verið undan viðmiðum þeirra þannig að þau ná engan veginn þeim markmiðum sem þeim var ætlað að gera.

Stjórnarmeirihlutinn hefur boðað og hæstv. félags- og jafnréttisráðherra nefnt nokkrum sinnum í umræðum um þessi mál að til standi að endurskoða þessi kerfi. Það er vel. Það er mjög jákvætt. Síðasta ríkisstjórn setti þau mál líka á oddinn. En það breytir ekki stöðunni á næsta ári. Það breytir ekki stöðunni inn í kjaraviðræður t.d. á næsta ári eða framlengingu kjarasamninga o.s.frv. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvað sé svona erfitt við það að setjast yfir og meta tillögurnar efnislega af hálfu minni hluta og meiri hluta og finna leiðir til að leyfa þeim að ganga í gegn til að þessi kerfi séu þá alla vega svona þokkalega stödd á næsta ári þar til endurskoðun þeirra lýkur. Það er ekki verið að biðja um mikið meira.

Þegar maður horfir á þessa stöðu þá segir maður: Í fyrsta lagi ber þetta ekki góðan vitnisburð um vilja til breyttra vinnubragða og í öðru lagi endurspeglar þetta náttúrlega ekkert annað en pólitíska forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Það var ekkert vandamál af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja til á mjög skömmum tíma u.þ.b. 17 milljarða útgjaldaaukningu frá fyrri fjárlögum sem lögð voru fram hér í haust og af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar að leggja fram 3 milljarða til viðbótar í útgjaldaaukningu eftir tveggja eða þriggja daga umfjöllun. Þar vantaði ekkert upp á viljann. Þar var ekkert vandamál að bregðast við fjárhæðum eða þörfum af þeirri stærðargráðu. Hér er verið að tala um tvær tillögur sem til samans kosta u.þ.b. 3 milljarða kr. í auknum útgjöldum ríkissjóðs. Það má alveg nefna að á tekjuhlið fjárlaganna hefur þegar verið breytt þannig að annars vegar var lögð fram tillaga um að framlengja undanþáguákvæði bílaleiga sem kostar ríkissjóð u.þ.b. 1,5 milljarða í tekjum og helminga áður áformaðar hækkanir af kolefnisgjöldum sem hefði skilað ríkissjóði u.þ.b. 2 milljörðum til viðbótar. Þannig að bara þessir tveir liðir hefðu fjármagnað þessar breytingartillögur minni hlutans.

Það er því ekki hægt að segja neitt annað en að þetta endurspegli forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Sú forgangsröðun er ekki í átt að auknum jöfnuði, er ekki í átt að því að tryggja að þessi grunnkerfi í tekjudreifingu skattkerfisins virki sem skyldi. Það eru mikil vonbrigði. Og hægt er að nefna fleiri dæmi um þessa sömu forgangsröðun.

Við erum að ræða fjárlög þar sem gert er ráð fyrir að persónuafsláttur hækki í takt við vísitölu neysluverðs, en á sama tíma að mörkin milli tekjuskattsþrepanna hækki í takt við launavísitölu. Þetta er aðgerð sem ein og sér skilar þá mun meiri ávinningi fyrir tekjuhærri hópana en þá tekjulægri. Enn og aftur, ekki verður horft á það sem áherslu í átt að auknum jöfnuði eða aukinni skilvirkni skattkerfisins til tekjudreifingar.

Það sama má raunar segja um yfirlýst áform ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála um að skattkerfisbreytingar muni hverfast um að lækka neðra þrepið um 1%. Það skilar enn og aftur í raun og veru þeim sem eru með millitekjur og upp úr langmestum ávinningi. Það væri nær lagi að horfa til þess að endurskoða skattkerfið frá grunni, m.a. þannig að persónuafsláttur þjónaði betur þeim allra tekjulægstu, lækkaði virka skattprósentu allra tekjulægstu hópanna og skilar sér í rauninni í tvöfaldri virkni, því það bætir nýtingu þessara grunnbótakerfa okkar eins og örorkulífeyriskerfisins og ellilífeyris eða almannatrygginga. Það dregur þá úr hækkunarþörf, ef svo mætti segja, þar á móti. Það væri skynsamleg nálgun og hafa þegar verið settar fram tillögur í þessa veru með stiglækkandi persónuafslætti sem mætti vel vinna meira með að útfæra í stað þess að horfa til þess að halda óbreyttu skattkerfi en lækka bara neðra þrepið.

Mér er það í rauninni til efs þegar það er boðað af hálfu stjórnarmeirihlutans að þetta sé eitthvert innlegg í kjaraviðræður að lækka neðra þrepið, að það sé metið svo á hinum endanum, þ.e. hjá samtökum launþega. Þetta hefur verið prófað áður í kjaraviðræðum, að ég hygg 2015, og var ekki gefið mikið fyrir þau áform þeirrar ríkisstjórnar að lækka eða afnema milliþrepið eins og þar var boðað. Ég held að þar mætti í samstarfi við launþegahreyfinguna við minni hluta á þingi finna mun beittari aðgerðir í skattkerfinu sem myndu skila sér miklu betur til þeirra tekjulægri.

Á endanum er þetta bara pólitísk forgangsröðun. Á þeirri forgangsröðun verða þá stjórnarflokkarnir þrír að bera ábyrgð þó að maður viti mætavel að einhverjir flokkar tala sér þar þvert um geð.

Það eru önnur mál sem hér eru athyglisverð. Breytingartillögur, t.d. ein frá Flokki fólksins og fleirum, sem snýr einmitt að skattlagningu á sérstökum uppbótum í örorkulífeyriskerfinu. Ég get mjög vel tekið undir þá hugsun sem er að baki þeirri tillögu. Ég held raunar að skoða þyrfti þetta nánar og þá í heildarsamhenginu, en ég held að mjög gagnlegt væri að taka þessa hugsun til alvarlegrar skoðunar, sjá hvernig mætti koma til móts við þetta augljósa sanngirnissjónarmið, að ekki sé verið að skattleggja sérstakar uppbætur hjá fólki vegna kostnaðar sem það sannarlega verður fyrir. Það mætti líka ná utan um það með því einfaldlega að heimila frádrátt eða lækkun tekjuskattsstofns í skattframtali. En með einhverjum hætti þyrfti að koma til móts við þetta. Þetta er augljóst sanngirnissjónarmið og getur líka átt við raunar um fólk sem er á vinnumarkaði en verður mögulega fyrir töluverðum kostnaði til að sækja vinnu, t.d. vegna fötlunar, sem gæti þá mögulega fengið skattfrádrátt eða lækkaðan tekjuskattsstofn vegna þess kostnaðar sem það sannarlega verður fyrir. Þetta held ég að við ættum að taka til alvarlegrar skoðunar.

Mig langar svona í lokin að taka undir í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þá breytingartillögu er snýr að frádrætti vaxtagjalda. Þetta snýr að samstæðufjármögnun innlendra félaga, talandi um að skipta alveg um gír. Ég held að þarna sé mikilvægt að framlengja þessa undanþágu til bráðabirgða um ár til viðbótar hið minnsta. Þarna augljóslega hefur ekki verið unnin sú vinna sem þurfti að vinna í fjármálaráðuneytinu til að tryggja að alla vega væri fundin eins góð lausn og kostur væri. Þetta snýr að fjármögnun innlendra fyrirtækjasamstæðna sem í krafti samstæðunnar er að reyna að tryggja sér sem hagkvæmasta fjármögnun, hafa fjármagnað sig jafnvel til ára eða áratuga á grunni þeirra laga sem voru gildandi og verður þá auðvitað að tryggja að sem best sé úr garði gerð við hverjar þær breytingar sem þar kunna að verða. Ég tek undir breytingartillögu meiri hlutans hvað þetta varðar, að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði, undanþáguákvæði, um eitt ár til viðbótar.

Enn og aftur. Ég vona svo sannarlega að meiri hlutinn sýni það við þessa fjárlagaumræðu að hann sé raunverulega reiðubúinn til einhver samtals um breytt vinnubrögð, að hann sé reiðubúinn til að skoða það sem ég myndi segja að væru skynsamlegar, sanngjarnar breytingartillögur minni hlutans, og koma þá a.m.k. með einhverjum hætti til móts við þau sjónarmið sem þar eru sett fram.