148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:25]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að nýta mér það að hv. þingmaður var ráðherra í síðustu ríkisstjórn og hefur væntanlega dálítið góða þekkingu á þessum málaflokki, þá sérstaklega hvað varðar barnabæturnar, sem ég náttúrlega styð heils hugar, þ.e. þá tillögu að barnabætur eigi ekki að skerðast fyrr en þær hafa alla vega náð lágmarkslaunum. Annað er mjög furðulegt, sérstaklega ef við höfum einhvern áhuga á að uppræta fátækt hér. Komið hefur í ljós að einstæðir foreldrar eru með viðkvæmari hópum í samfélaginu og þurfa þeir mikið á barnabótum að halda. Ég upplifi það á eigin skinni sem einstætt foreldri hvað það hefur mikil áhrif á fjárhaginn þegar þessar lágu bætur skerðast. Þessar barnabætur ættu náttúrlega að vera hugsaðar fyrir barnið, þetta eru bætur til barnsins. Þær eiga ekki að skerðast eftir fjárhag.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki til hvernig þessu er hagað í löndunum í kringum okkur. Mér skilst að í sumum löndum séu þessar bætur ekki skertar. Þetta séu bætur sem fari til fólks óháð efnahag. Þekkir hv. þingmaður til þess hvaða áhrif það hefur haft, hvort þetta er einungis kostnaður eða hvort einhver sparnaður komi á móti? Hvernig kemur þetta út fjárhagslega og samfélagslega í þeim löndum sem ekki skerða þessar bætur? Eða misskil ég þetta á einhvern hátt?