148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta var ræða sem maður myndi búast við að heyra úr herdeildum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á síðasta kjörtímabili, hvað þá þarsíðasta. Þegar hv. þingmaður flutti sína ræðu, sem ég tek nú að flestu leyti undir, velti ég því skyndilega fyrir mér: Hvað ef þessi sami hv. þingmaður eða sá sem hér stendur myndi allt í einu lenda í ríkisstjórn, myndi málflutningurinn þá breytast? Ég trúi því ekki að hann myndi breytast. Það er þó ekki alfarið vegna þess að ég hafi svo hátt álit á hv. þingmanni, sem ég þó hef, heldur vegna þess að ég hef sama háa álitið á þeim hv. þingmönnum sem núna eru hæstv. ráðherrar en hafa breytt málflutningi sínum. Mér finnst það svo skrýtið, svo stórfurðulegt. Ég leita skýringa á því þessa dagana og vona að mér verði eitthvað ágengt í því.

Mér er annt um að svona tillögur eigi raunverulegan möguleika, það sé raunverulegt tækifæri til að breyta hlutunum þegar maður flytur gott mál, er með staðreyndirnar á hreinu, getur rökstutt mál sitt og talar af sannfæringarkrafti eins og hv. þingmaður. Mér finnst svo sorglegt að þessar tillögur séu að því er virðist fyrir fram dauðadæmdar við atkvæðagreiðslu á morgun. Ég velti fyrir mér ef hv. þingmaður kæmist í ríkisstjórn, sem við skulum vona að gerist einhvern tíma, hvort hann myndi haga máli sínu öðruvísi en hæstv. ráðherrar nú. Hvað ættum við sem þingmenn sem viljum fá þessar breytingar fram að ráðleggja hæstv. ríkisstjórn með hliðsjón af því að við vorum fyrir mjög skömmu síðan í sama liðinu?