148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála þingmanninum að þetta er mjög skrýtið. Í einu orðinu ertu að semja um eitthvað sem er algert lágmark og það að menn njóti þá ekki til fulls þess stuðnings sem ríkið vill ráðast í er auðvitað óskiljanlegt. Það mætti gjarnan fara yfir þetta allt. Ég held að ágætisbyrjun væri að reyna að samræma og komast að niðurstöðu um eitthvað sem menn geta kallað framfærsluþörf. Það eru ólíkir aðilar að gera þetta og þetta er mjög misjafnt. Ég held að það væri byrjunin. Við ættum að ráðast í þá vinnu, sem velferðarráðuneytið hefur m.a. gert, að koma okkur saman um hvað fólk þarf að algeru lágmarki.

Barnabætur eru dálítið sérstakar að því leyti að þetta er sennilega einhver dýrmætasta fjárfesting hvers þjóðfélags, ég tala ekki um núna á okkar dögum þegar nánast ekkert Evrópuríki — ég man ekki hvort það er á Íslandi, í Færeyjum og Póllandi þar sem er einhver fólksfjölgun sem stafar af huggulegum samverustundum hjóna inni í herbergi, og náttúrlega annarra og í tjöldum og alls staðar. Síðan er auðvitað flutningur á fólki. Það eru mjög mikil verðmæti sem felast í því að við fjölgum okkur. Þess vegna sé ég ekki eftir einni krónu sem fer í barnabætur. Mín vegna mættum við þegar við höfum ráð á horfa til Norðurlandanna og tekjutengja þetta miklu minna og líta á þetta sem heiður og stuðning við fólk sem stendur í þessu.