148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar aðeins að taka upp þráðinn frá því áðan. Hv. þm. Logi Einarsson talaði um að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur væru eins og olía og eldur. Ég held að hann hafi meint olía og vatn, (LE: Já.) líklega. Það finnst mér mjög áhugavert. Ef ég tek líkinguna skrefi lengra held ég að núverandi ríkisstjórnarsamstarf sé einmitt eins og eldur og vatn, núllist út og verði í raun að engu.

Minnst var á 100 milljarða kr. innviðauppbyggingu: Ég held að ég sé búinn að fatta hvernig þeir ætla að fara að því. Á fjögurra ára kjörtímabili þarf bara 25 milljarða á fyrsta árinu sem lifa út kjörtímabilið, summast upp í 100 milljarða. En nú er búið að bæta heilum 25 milljörðum við, hluti af því er ákveðnar áherslur ríkisstjórnar sem bætast sérstaklega við í fjáraukann, um að hún fái fimm ára tímabil til að dreifa þessum 100 milljörðum á, ekki bara fjögur ár. Þannig að: Ha, ha. Þetta er mjög trikkí hérna.

Þessi breytingartillaga um bandorminn er nokkurra síðna löng og þar segir alltaf: „í stað þetta margra króna“ eða „í þessari málsgrein verður hitt og þetta svona eða hinsegin“. Það verður til þess að maður nær ekki samhengi þegar maður tekur þetta út úr rekkanum í hliðarherberginu og reynir að átta sig á því hvað í fjandanum sé að gerast. Ég vil aftur minna á að hér hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga um tölvutæk þingskjöl. Ef hún yrði að veruleika yrði það til þess að þó að prentað yrði í þessari útgáfu, styttri útgáfu, breytingarnar einungis sýndar, þá yrði mjög auðvelt að fá rafrænu útgáfuna í fullu samhengi, með sérmerktum breytingum þannig að maður sæi mjög auðveldlega hvað er að gerast og gæti lesið breytingartillöguna sér til gagns, ekki eins og hún er núna.

Ég vil nefna ræðu hv. þingkonu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, í störfum þingsins, um að við ættum að vita í hvaða stöðu þingsályktunartillögur okkar eru, en ég sakna einmitt mjög þessarar umræddu tillögu, sérstaklega þegar ég fæ þingskjal eins og þetta í hendurnar.

Aðeins að efnahagsþættinum í þessu sem kemur frá efnahags- og viðskiptanefnd. Ég er í fjárlaganefnd og lít þar af leiðandi á þá efnahagsþætti í fjárlagafrumvarpinu sem mér finnst spila aðeins inn í þá stöðu sem við erum í. Mig langaði til að vekja athygli á því — þetta er bara mín tilfinning á undanförnum árum, byggð á upplýsingum um það sem við höfum fengið að vita í nefnd og allt á þessum stutta tíma eins og liggur fyrir — að hagvaxtarspár eru alltaf sýndar sem mjög áhugaverð myndrit. Sama í hvaða stöðu myndritið er í nútímanum þá stefnum við alltaf í ákveðið jafnvægi eftir þrjú ár eða eitthvað svoleiðis, kannski fimm. Allar hagvaxtarspár búa bara til ákveðna hallatölu út frá núverandi ástandi upp í eitthvert jafnvægisástand. Ef við erum með ofsalega háan hagvöxt þá mun það stefna niður í 2,5. Ef við erum með ofsalega lítinn hagvöxt þá mun það stefna upp í 2,5 bara á einhverjum árafjölda. Þetta virðist vera spámódelið, þar er bara dregin einföld lína, alla vega reiknast það út þannig. Mér finnst það mjög áhugavert, tölfræðilega og reikningslega séð, hvernig þetta getur gerst. Það virðist mjög innbyggt í kerfin að einu sviðsmyndagreiningarnar sem við fáum eru einfaldlega óskastaðan, í einhverjum 2,5%. Þannig verður hún. Það er eins og módelin séu stillt til að sýna þá niðurstöðu. Mér líður alla vega þannig, hvort sem þetta er satt eða ekki.

Í fjárlagafrumvarpinu, þar sem talað er um tekjuþætti o.s.frv., sem fjallað er um í bandorminum, er minnst á tekjuaukninguna. Á bls. 81 er sagt að hærri tekjur árið 2018 skýrist nær alfarið af styrkari skattstofnum. Þetta er mjög áhugaverð setning, sérstaklega þegar maður flettir síðan á bls. 103. Þar segir, með leyfi forseta:

„Brottfall nokkurra tekjustofna á undanförnum árum gerir það einnig að verkum að þunginn er orðinn mjög mikill á meginskattstofna eins og virðisaukaskatt, tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald. Það felur í sér að þegar um hægist í efnahagslífinu taka tekjurnar mun stærri dýfu en útgjöldin með tilheyrandi áhrifum á afkomuna til hins verra og skuldasöfnun hefst að nýju.“

Það er mjög merkilegt að sjá þetta með tuttugu blaðsíðna millibili, þessar greiningar. Þetta er einmitt það sem hefur komið fram í ræðum fyrr í kvöld. Fólk hefur áhyggjur af tekjustofninum sem slíkum, óháð því hvort það sé til jöfnunar eða bara tekjuöflunar; hann er ekki nógu dínamískur, skilvirkur, til að skila okkur í gegnum hagsveiflur á skilvirkan hátt, þá til sveiflujöfnunar eins og á að vera. Fjárlagafrumvarpið, og þá líka breytingartillögurnar í bandorminum, er einfaldlega ekki að hjálpa okkur miðað við þær spár sem settar eru fram í fjárlagafrumvarpinu um aukna verðbólgu og að hagvöxtur fari minnkandi. Ég held að keðjuverkunin verði meiri en bara þessi einfalda hallatala í áttina að 2,5%, hvort sem það gerist á næsta ári eða því þarnæsta, ég get ekki alveg sagt til um það. Enda eru spálíkönin ekkert svo rosalega fjölbreytt þannig að ég geti vegið og metið hver hættan á því er.

En almenn umfjöllun um þetta hlýtur að tengjast tímaskorti, það er ekki hægt að komast hjá því. En það er ekki bara í yfirferð málanna heldur líka í breytingarhugmyndunum, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson kom inn á áður. Nú þegar við erum að reyna að leggja fram, að því er við teljum góðar breytingartillögur, nauðsynlegar breytingartillögur, klórum við okkur í hausnum yfir því hvernig atkvæðataflan gengur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég velti fyrir mér hvort ríkisstjórnin springi virkilega ef hluti þingmanna ríkisstjórnarinnar fylgir eigin sannfæringu og kýs þá með eða á móti einhverjum tillögum. Ég skil það mjög vel að þau kvitti undir það og búi í samvinnu til fjárlagafrumvarpið sem þarf þá að koma í gegn. Það er nauðsynlegt, að skila alla vega fjárlagafrumvarpinu, hafna því ekki. Það væri náttúrlega alger katastrófa. En smábreytingartillögur ættu ekki að valda neinum hörmungum ef hluti þingmanna ríkisstjórnar eða stjórnarandstöðu myndi styðja tillögur meiri hluta eða tillögur minni hluta á móti, þegar það er alla vega trygging fyrir því að fjárlagafrumvarpið nái í gegn. Ég skil það mjög vel ef um er að ræða stórvægilegar breytingar upp á tugi milljarða — jú við lögðum til breytingartillögu upp á 12 milljarða varðandi húsnæðisstuðninginn, en það var aðallega til þess að sýna fram á hver þörfin er. Þörfin er gríðarleg á því málefnasviði. Það er einfaldlega sorglegt að 12 milljarðar þar skuli einungis vera dropi í hafið. Vissulega hefði verið hægt að standa undir því en alla jafna skil ég að slíkri tillögu sé hafnað. Hún lítur einfaldlega öfgakennd út en tilgangurinn með henni var einmitt að sýna fram á að vandamálið er þeim mun stærra.

Ég á mér eiginlega uppáhaldskafla í fjárlagafrumvarpinu þar sem talað er um verðbólgu og gengi á bls. 99. Þetta spilar aðeins inn í tekjuöflunina og efnahagshorfurnar á næstunni. Verðbólgan á nú að fara yfir viðmið Seðlabankans, fara upp í 2,9% árin 2018–2019. Það gerir að verkum að tekjuaukningin sem á að verða út af hagvextinum — 25 milljarðar af henni fara í raun í verðlagsbætur. Tekjuaukningin verður miklu minni en við getum notað upp á það að gera.

Í kaflanum er talað um samspil gengis og verðbólgu og sagt að raungengi sé í hámarki, að stöðugt raungengi hafi í raun aldrei verið hærra. Hátt raungengi er til þess fallið að skerða ákveðna samkeppnishæfni. Ég skil það ágætlega. En hér er tónninn aðeins sleginn varðandi kjarasamningana sem eru að fara í gang. Þegar raungengið er lágt getur hagkerfið þolað launahækkanir í smátíma umfram framleiðnivöxt án þess að samkeppnishæfni skerðist verulega. Ég hef einmitt áhyggjur af því að nákvæmlega það gerist, þ.e. að gerðir verði kjarasamningar og að á sama tíma lækki gengið sem sýni í raun ekki áhrif kjarasamninganna á efnahaginn strax. Það getur valdið vandamálum upp á mat okkar á stöðunni, að við metum hana ekki eins og hún er í raun og veru.

Það spilar þá aftur inn í þá þröngu tekjustofna sem við höfum og þessa fallvöltu tekjustofna; þegar um hægist í efnahagskerfinu minnka tekjurnar gríðarlega. Út frá því sem við lesum hér ætti breikkun á tekjustofnunum að skipta gríðarlega miklu máli. Það að bæta við tekjustofnum, eins og ástandið er núna, ætti að gefa möguleika á að lækka þá þessa aðaltekjustofna á móti þannig að þeir þurfi ekki að standa undir eins miklum straumi af útgjöldum ríkissjóðs og þeir gera. Þá höfum við fleiri tæki til að stilla fram og til baka eftir því hvernig efnahagsástandið er til að bregðast við sveiflunum í hagkerfinu. En við höfum það ekki. Það er ekki verið að leggja það til í bandormsbreytingunum og ekki í fjárlagafrumvarpinu. Þannig að ég verð einfaldlega að tjá áhyggjur mínar af framhaldinu ef ekki verður gripið til þeirra aðgerða að breikka aðeins í tekjustofnunum.

Alla jafna, í góðum hagvexti og árferði eins og nú er væri hægt að skipta tekjunum og tekjustofnunum; þeir gætu skipt betur með sér tapinu, þegar það er samdráttur í hagvextinum, og hagnaðinum þegar það er plús í hagvexti. Að öðru leyti hefur maður því miður ekki nægan tíma til að gera betri tölulegar greiningar á þessum þáttum, ekki tíma til að spyrja um það í nefndunum og fá minnisblöð um þetta sem eru vel ígrunduð. Maður ætti að geta spurt fram og til baka til að komast nær því sem gæti verið raunhæfara. Þess í stað erum við að taka þetta á handahlaupum.

Miðað við þessa léttu yfirferð þá verð ég að segja að horfurnar eru ekki eins góðar og textinn í fjárlagafrumvarpinu segir okkur. Að sjálfsögðu viljum við oft ekki gera lítið úr því sem við erum með í höndunum, við viljum helst gera meira úr því. Þá á ekki að vera hægt að tala upp eða tala niður hitt og þetta en það er nú samt þannig. Ég myndi vilja biðja fólk um að íhuga þetta og taka alvarlega til skoðunar á næsta ári; skoða betur hvað er hægt að gera til þess að stuðla að því að stöðugleikinn sé viðvarandi. Stöðugleikinn hjá okkur sveiflast einfaldlega með hagvextinum og hagvaxtarsveiflum efnahagsins. Við erum með þannig stöðugleika, stöðugleika sem flakkar með efnahagssveiflum. Það er alveg stöðugleiki, það er mjög stöðugt að það gerist, sem er ekki endilega það sem hann á samt að þýða.