148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þessi breytingartillaga sem við vorum að taka inn á afbrigðum, ég biðst afsökunar á því, það er svolítið seint fram komið með hana, en hún hefur svo sem verið flutt mjög oft áður. Ég hef flutt hana nokkrum sinnum sjálfur áður í þinginu, á þarsíðasta kjörtímabili. Margir aðrir hafa flutt hana þar á undan. Þetta er mjög einfalt. Í dag er laxveiði undanskilin virðisaukaskatti, sem er í sjálfu sér arfavitlaus hugmynd. Þetta gerðist víst 1990 þegar ríkisskattstjóri ákvað að skilgreina leiguna á veiðileyfinu sem fasteignaleigu. Það sama mætti segja um hótelherbergi. Að sjálfsögðu er fólk að vissu leyti að leigja fasteign þegar það leigir hótelherbergi en við skilgreinum það samt sem áður ekki sem fasteignaleigu og undanskiljum hana virðisaukaskatti. Þetta er (Gripið fram í.) í rauninni það að við erum með ákveðið sport sem ríkt fólk hefur efni á að stunda og það sport er sérstaklega undanskilið virðisaukaskatti, sem það á ekki að vera.

Þegar ég flutti málið síðast, á 144. löggjafarþingi, var Bjarni Benediktsson líka fjármálaráðherra, áður en hann varð forsætisráðherra og aftur fjármálaráðherra. Þar kom alveg skýrt fram hvernig stefnan var. Stefnan er sú varðandi virðisaukaskattinn að draga þrepin saman, eins og var verið að gera þá, og afnema undanþágur, þannig verður virðisaukaskatturinn skilvirkastur. Þetta er því ekki aðeins skilvirkt heldur líka sanngjarnt.

Tillagan er mjög einföld; að sú (Gripið fram í.) undanþága sem var gefin á sínum tíma, holan sem ríkisskattstjóri bjó til fyrir þetta sport, verði afnumin. Hvað eru þetta miklar upphæðir? Sjálf greinin í heild er einhverjir 20 milljarðar en þá er samt sem áður verið að taka virðisaukaskatt af alls konar þjónustu sem er þarna undir. Veiðileyfin sjálf er mér sagt að séu kannski um 2 milljarðar, 10% af öllum pakkanum, sem þýðir að ef við samþykkjum þessa tillögu og setjum þetta undir, fyllum upp í holuna í skattinum, í virðisaukaskatti, setjum þetta undir 11%, neðra skattþrepið í virðisaukaskatti, þá náum við inn 220 milljónum. Við horfum fram á að það vantar hér og þar smávegis peninga — menn ákváðu að setja 70 aukalega í NPA sem var mjög gott en það þurfti samt sem áður smá tiltal til að það gerðist — þannig að hvers vegna erum við að afsala okkur 220 milljónum af virðisaukaskatti í sport sem aðallega efnað fólk stundar? Það er spurningin. Tillagan er að fylla upp í þessa holu.