148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

atkvæðagreiðsla um fjárlög.

[10:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafa gert mikið úr því að til standi að efla Alþingi. Raunar virðist þessi ríkisstjórn ekki bara hafa verið mynduð um samstarf flokkanna þriggja og stjórnarsáttmála hans heldur var stjórnarsáttmáli sérstaklega nefndur sáttmáli um eflingu Alþingis.

Hins vegar hefur nú farið lítið fyrir þeirri eflingu og nýjum vinnubrögðum. Við höfum ekki séð þau birtast í því hvernig valið var í nefndir þingsins og við höfum ekki séð það birtast í því hvernig mál hafa verið unnin á þinginu, til að mynda hvað varðar möguleika minni hlutans á að koma að málum eða ábendingum um breytingartillögur.

Reyndar hefur minni hlutinn að þessu sinni, held ég að megi alveg fylgja sögunni, sýnt af sér ný vinnubrögð. Ég efast um að í seinni tíð hafi nokkur stjórnarandstaða sýnt eins mikinn samstarfsvilja og núverandi minni hluti. Ekki hefur farið mikið fyrir umræðum um fundarstjórn forseta eða málþófi þrátt fyrir erfiða aðstöðu ríkisstjórnarinnar sem kemur hér inn með mjög stór mál, auðvitað helst fjárlagafrumvarpið, á síðustu stundu. Minni hlutinn hefur verið viljugur til þess að vinna það með stjórninni ólíkt því sem var þegar t.d. Vinstrihreyfingin – grænt framboð var í stjórnarandstöðu.

Því spyr ég, herra forseti: Er hæstv. forsætisráðherra reiðubúin til þess að hvetja þingmenn stjórnarmeirihlutans til þess í dag að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni? Er hæstv. forsætisráðherra tilbúin til þess að hvetja þingmenn stjórnarmeirihlutans til þess að fylgja stjórnarskrá þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga og meta hverja og eina tillögu einfaldlega út frá innihaldi tillögunnar og mati viðkomandi á þeirri tillögu, ekki út frá einhverjum fyrirmælum frá stjórnarmeirihlutanum?