148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

atkvæðagreiðsla um fjárlög.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrirspurnina. Ég vil byrja á að segja að ég hef átt mjög gott samstarf við hv. þingmann sem og aðra hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar það sem af er þessu þingi, þannig að ég lít svo á að samstarfið hér á þingi hafi gengið vel. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála. Ég vil líka benda á, af því að hv. þingmaður nefnir nefndir þingsins, að fleiri nefndir hafa ekki verið leiddar af stjórnarandstöðu í áratug. Ég fagna því að stjórnarandstaðan hafi ákveðið að taka því boði að leiða nefndir. Ég held að það skipti máli fyrir þingið. Ég er nokkuð bjartsýn á að við getum átt gott samstarf á þinginu.

Ég hef hins vegar alltaf haldið því til haga eins og hv. þingmaður er mér sammála um, ég veit það því að ég hef oft heyrt hann segja það, að samstarf á þinginu snýst auðvitað ekki um það að fólk falli frá sannfæringu sinni eða sé ekki ósammála áfram. Þetta snýst ekki um að við hættum að vera ósammála á þinginu því þá gætum við náttúrlega í raun og veru sleppt því að vera í ólíkum flokkum. Ég lít ekki svo á að hv. þingmenn, hvorki stjórnar né stjórnarandstöðu, þurfi einhverja hvatningu frá mér til að fylgja stjórnarskrá. Ég tel það bara algjörlega sjálfgefið að þeir geri það og greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni í dag sem endranær.