148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

atkvæðagreiðsla um fjárlög.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég lít svo á að hæstv. forsætisráðherra hafi verið að lýsa því hér yfir, og ráðherrann leiðréttir mig ef mér skjátlast, að hún telji það eðlilegt og æskilegt, jafnvel nauðsynlegt, að þingmenn stjórnarliðsins, rétt eins og þingmenn minni hlutans, greiði atkvæði í dag samkvæmt sannfæringu sinni, ekki samkvæmt einhverjum tilskipunum frá meiri hlutanum. Þegar hér koma fram breytingartillögur frá stjórnarandstöðunni varðandi ekki hvað síst fjárlagafrumvarpið hefur því hver og einn þingmaður, hver og einn stjórnarliði þar á meðal, frelsi til að greiða atkvæði eins og viðkomandi telur rétt. Það er gott að vita það, herra forseti, því að þá getum við metið atkvæði hvers og eins þingmanns út frá því. Hver og einn þingmaður hefur frelsi til að greiða atkvæði nákvæmlega eins og viðkomandi telur rétt. Og við skulum meta atkvæðagreiðsluna sem fram fer á eftir út frá því.