148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

barnabætur.

[10:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Færri og færri fjölskyldur njóta barnabóta hér á landi. Fjölskyldunum hefur fækkað um rúmlega 12 þúsund frá árinu 2013. Á Norðurlöndum, og reyndar víða í Evrópu, hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings við barnafjölskyldur en hér á landi hefur dregið úr vægi þeirra jafnt og þétt. Þeirri stefnu virðist eiga að halda áfram í ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna sem leggja til að á árinu 2018 byrji barnabætur að skerðast langt undir lágmarkslaunum. Raunin er sú að mikil skerðing barnabóta strax við lágar tekjur, líkt og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til, stuðlar að meiri fátækt meðal vinnandi fólks. Hjón sem bæði eru í launaðri vinnu en á lágum launum fá litlar barnabætur hér á landi. Það er ein af ástæðunum fyrir því að fátækt meðal barnafjölskyldna er meiri en hjá barnlausum fjölskyldum. Það er þekkt staðreynd og það eina sem beðið er eftir er að stjórnvöld grípi til meðala sem virka.

Sú sem hér stendur hefur ásamt hæstv. forsætisráðherra og fleirum í okkar flokkum talað fyrir breytingu á skerðingarmörkum barnabóta fyrir daufum eyrum núverandi samstarfsflokka Vinstri grænna í ríkisstjórn. Sú spurning er því áleitin hvort forystumaður ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, tali enn fyrir daufum eyrum stjórnarflokkanna um nauðsyn þess að breyta skerðingarmörkum barnabóta, a.m.k. að miða þau við lágmarkslaun. Er eitthvað því til fyrirstöðu að hæstv. forsætisráðherra samþykki breytingartillögur minni hlutans um að skerðing barnabóta hefjist ekki fyrr en lágmarkslaunum er náð? Og hver er fyrirstaðan, ef hún er einhver?