148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

barnabætur.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Barnabætur hækka á milli ára en ekki er gerð nein kerfisbreyting á fyrirkomulagi barnabóta. Ég tel það satt að segja ekki sérlega vönduð vinnubrögð að horfa ekki á málin heildstætt á þeim stutta tíma sem við höfum til að afgreiða hér fjárlög og tekjuöflun. Ég tel mun mikilvægara að við á Alþingi setjumst yfir það sameiginlega verkefni að fara yfir samspil skatta og bótakerfa á því kjörtímabili sem fram undan er þannig að við tryggjum það að til að mynda húsnæðisstuðningur, sem hefur líka verið töluvert til umræðu hér, nýtist best tekjulágum og ungu fólki þannig að við styðjum það við að koma sér þaki yfir höfuðið og að við tökum pólitíska umræðu um það hvernig við viljum sjá barnabótakerfið þróast.

Hv. þingmaður segir að sú spurning sé áleitin af hverju ekki sé lögð til meiri aukning í það. Ef ég á að skoða tillögur hv. þingmanns er það alveg rétt að hv. þingmaður tilheyrir þeim flokki sem lagt hefur til verulega útgjaldaaukningu til viðbótar við þá miklu aukningu sem orðið hefur til samfélagslegra innviða í því frumvarpi sem við ætlum að afgreiða í dag. Ef ég man rétt talaði Samfylkingin um það fyrir kosningar að á kjörtímabilinu þyrfti að auka hér útgjöld um 40 milljarða til að ná félagslegum stöðugleika. Við töluðum um 40–50 milljarða og erum búin að auka útgjöld til samfélagslegra innviða um 18 milljarða á þessum skamma tíma. En Samfylkingunni finnst ekki nóg að það sér gert á tveimur vikum að styrkja samfélagslega innviði með þessum hætti, heldur hún vill frekari útgjöld. Sú áleitna spurning sem hefur leitað á mig er hins vegar: Hvar eru tekjuöflunartillögur Samfylkingarinnar?