148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breytingartillaga um hækkun barnabóta.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafa lagt fram áherslur sínar í fjárlögum. Ég hefði haldið að allir hv. þingmenn ættu að geta verið nokkuð sammála um að þau málefni sem sérstaklega er verið að horfa til í fjárlagafrumvarpi þessa árs snúast um þau mál sem voru hvað hæst á forgangslista almennings, og til að mynda þingflokkur hv. þingmanns, Píratar, hefur verið mjög öflugur að benda á, þ.e. heilbrigðismálin, að þau ættu að njóta mests forgangs, eins og komið hefur ítrekað fram í skoðanakönnunum. Og síðan menntamálin, sem hafa verið vanrækt en snúast bæði um atvinnutæki framtíðar en líka auðvitað risastórt jafnaðarmál.

Það liggur algjörlega fyrir af minni hálfu að það eru mjög margar góðar úrbætur sem ég myndi vilja halda áfram að gera á kerfinu. Hv. þingmaður nefnir hér barnabætur og ég er sammála því að við þurfum að horfa til þess hvernig við getum styrkt það kerfi. En ég er líka mjög meðvituð um að við getum ekki gert alla góða hluti í einu, þannig að þegar hv. þingmaður spyr mig um hvað mitt atkvæði snúist hér á eftir þá snýst það um að ég stend með þeim tillögum sem ég tel ábyrgar og góðar og endurspegla skýra forgangsröðun um það hvernig við viljum byggja upp hina samfélagslegu innviði. Þar með er ekki sagt að við munum ekki halda áfram að byggja upp þá innviði, eðli málsins samkvæmt, þannig að ég tel í sjálfu sér ekki mikil tíðindi í svörum mínum við fyrirspurn hv. þingmanns.

Hv. þingmaður spyr svo: Kemur til greina einhvern tíma í framtíðinni að styðja tillögur minni hlutans um eitthvað? Það var spurningin, ekki satt, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Já, það kemur að sjálfsögðu til greina. Ég hef sjálf talað fyrir tillögum, sérstaklega vil ég nefna að ég barðist fyrir máli sem varðar þunna eiginfjármögnun og mælti fyrir því ítrekað í þinginu. Það var á endanum tekið inn í vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar á sínum tíma og varð hér að lögum 2016, svo dæmi sé tekið. Ég þekki það bara sem þingmaður minni hluta að tillögur mínar hafa verið samþykktar þannig að auðvitað kemur það til greina. En það skiptir máli að við reynum að ná vinnu innan þingnefndanna sérstaklega (Forseti hringir.) þegar um er að ræða stærri mál, þannig ég get ekki annað en svarað spurningu þingmannsins játandi.