148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

vaxta- og barnabætur.

[10:55]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um það sem snýr að barnabótum en sérstaklega vaxtabótum. Það má reyndar skilja svo á ummælum hæstv. forsætisráðherra í fyrri fyrirspurnum að hagstjórn eða hagstjórnarhlutverk þessara fjárlaga velti á því hvort aukið verði í stuðning við þá tekjulægstu eða ekki. Það er nokkuð sérstakt miðað við það að verið er að auka útgjöld um nærri 60 milljarða á milli ára og hér liggja fyrir tillögur frá minni hluta um 3 milljarða viðbót í þessi mikilvægu stuðningskerfi fyrir tekjulægstu hópana í samfélaginu, sem nota bene hafa verið lagðar fram tillögur um fjármögnun á á móti. Nú virðist ekki vera unnt að gera það af því að þá fari hagstjórnin endanlega á hliðina, sem kemur nokkuð á óvart. Það vekur hins vegar enn meiri furðu að heyra afstöðu hæstv. forsætisráðherra til þessara tillagna út frá efni þeirra, þ.e. að fyrst verði að endurskoða kerfin áður en hægt sé að auka stuðning eða í raun og veru viðhalda tiltölulega óbreyttum stuðningi við tekjulægstu hópana í samfélaginu. Kerfin eru þrautreynd. Við vitum hvað þarf til. Vandinn er að þau hafa verið að drabbast niður þannig að þau skila ekki lægstu tekjuhópum samfélagsins sambærilegum stuðningi og þau áður gerðu. Það er t.d. mjög einfalt í tilfelli vaxtabóta. Skerðingarfjárhæðir í eignum vaxtabótakerfisins hafa staðið óbreyttar í áratug á sama tíma og fasteignaverð hefur tvöfaldast.

Fólk borðar ekki eignarhlut sinn í húsnæði sínu. Þess vegna er mjög áhugavert að heyra afstöðu hæstv. forsætisráðherra: Telur hún enga þörf á að viðhalda sambærilegum stuðningi við tekjulægstu hópana áfram í hinu mikilvæga kerfi vaxtabóta? Er það virkilega svo að hagstjórn fari á hliðina við það eitt að viðhalda óbreyttum stuðningi á milli ára í ljósi þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á fasteignaverði og fasteignamati?