148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

vaxta- og barnabætur.

[10:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra að það er mikilvægt að endurskoða þessi kerfi og var raunar þegar búinn að setja slíka vinnu af stað þegar ég gegndi ráðherraembætti. En ég var líka búinn að segja áður í ræðustól að það væri einn helsti veikleiki þess fjárlagafrumvarps sem lagt var fram í haust að það væri ekkert gert í vaxtabótum og verið að skerða verulega stuðning við lága tekjuhópa vegna eignaviðmiða þar sem þeim hefði verið haldið óbreyttum í röskan áratug.

Endurskoðun og nefndarvinna hjálpar ekki þessu fólki á næsta ári. Þess vegna höfum við lagt fram tiltölulega einfalda tillögu um að hækka eignaviðmiðið, sem kostar um 1,3 milljarða. Við lögðum reyndar líka fram tillögur til þess að fjármagna þær tillögur. Þær voru felldar af meiri hlutanum þannig að meiri hluti verður að bera ábyrgð á hagstjórnaráhrifum þessa.

Ég spyr enn og aftur: Er engin þörf á að hjálpa tekjulægstu hópunum á næsta ári meðan á endurskoðun stendur?