148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

vaxta- og barnabætur.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara minna hv. þingmann á það sem hann sagði sjálfur þegar hann tók þátt í fjárlagaumræðu sem hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir nokkrum mánuðum þegar hann svaraði því þegar gagnrýnt var að vaxtabætur ykjust ekki í því fjárlagafrumvarpi sem hann stóð þá að, þá vildi hann sérstaklega horfa til séreignarsparnaðarleiðarinnar og horfa til aukningar á henni. (Gripið fram í: Hann er að spyrja þig.) Nei, hann er að spyrja um vaxtabætur en ekki séreignarsparnaðarleið. Þannig að mér heyrist að hv. þingmaður sé þá búinn að skipta um skoðun og telji vænlegra að fara í aukningu á vaxtabótaleiðinni. Ég fagna því ef umræðan á Alþingi er að leiða fram aðeins breyttar pólitískar línur í húsnæðisstuðningi. Þarna alla vega … (ÞorstV: Hver er …?)(Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)

Ég vil horfa til þess eins og hefur ítrekað komið fram hjá mér í umræðum um þetta, ég gagnrýndi séreignarsparnaðarleiðina sem hv. þingmaður lofaði sérstaklega fyrir nokkrum mánuðum fyrir einmitt að nýtast ekki þeim sem mest þyrftu á að halda, þ.e. hún nýtist fyrst og fremst þeim tekjuhærri en ekki hinum tekjulægri.