um fundarstjórn.
Virðulegi forseti. Aldrei hef ég séð kristallast jafn vel í umræðu á Alþingi hversu óheilbrigt samband framkvæmdarvaldsins er við löggjafarvaldið. Mér þykir algjörlega einsýnt að við verðum að taka til endurskoðunar hvernig því sambandi er háttað. Það hefur mjög neikvæð áhrif á ásýnd Alþingis þegar það lítur út fyrir, og ég ætla að leyfa mér að fullyrða þetta, að þingmeirihluti sé fyrir máli sem samt verður fellt, einfaldlega vegna þess að pólitískir hagsmunir sérstaklega eins tiltekins flokks í ríkisstjórn eru þannig að sá flokkur verður að greiða atkvæði gegn tillögum sem hann undir öllum öðrum kringumstæðum væri sammála, þori ég að fullyrða. Ég tel mig þekkja þann ágæta flokk nógu vel til að vita það, alla vega út frá því þegar ég starfaði við hliðina á þeim ágæta flokki árin 2013–2016 og vissulega af því að tala við stuðningsmenn þess ágæta flokks.
Mér finnst löngu kominn tími til að við förum að endurskoða allt í kringum það hvernig þessu sambandi er háttað og það varðar stjórnarskrá og þingsköp og hvernig við störfum hérna, (Forseti hringir.) ekki bara efnisatriði málsins.