148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp einfaldlega til þess að þakka fyrir það góða samkomulag sem hefur verið um framgang þessa máls í þinginu. Það eru sléttar tvær vikur frá því að 1. umr. fór fram um fjárlagafrumvarpið. Hún tók ekki lengri tíma en svo að fjárlaganefnd gat viku síðar skilað málinu áfram og við greiddum atkvæði eftir 2. umr. Og nú er málið komið hingað til lokaafgreiðslu hálfum mánuði eftir framsöguræðu mína. Það er alveg augljóst að til þess að þetta geti gerst á hálfum mánuði þarf gott samkomulag í þinginu. Uppi geta verið ólík sjónarmið um efnisatriði en ekkert gerist ef ekki er samkomulag um framgang mála.

Ég þakka öllum þeim sem hafa átt þar hlut að máli, fjárlaganefnd, öðrum nefndum sem fjölluðu um tengd mál og forsætisnefnd.