148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í gær töluðum við um fátækt á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að það er í fyrsta skipti sem ég upplifi mikinn samhljóm. Ég upplifði í þessum sal að við gætum öll verið sammála um að vera tilbúin að hjálpast að við einmitt að bæta kjör þeirra sem lakast eru staddir í samfélaginu.

Nú, þegar við erum að leggja í það að óska einungis eftir því að við sammælumst um að útrýma að því leyti sem við mögulega getum og koma til móts við fátæk börn með því að skerða ekki barnabætur fyrr en lágmarkslaunum er náð — ég trúi því ekki að allt sem hér fer fram sé í rauninni eitthvað sem enginn getur tekið mark á, að við getum ekki sammælst um að taka saman höndum hvar í flokki sem við stöndum, vera vinir og vinna fyrir þjóðina okkar, vinna fyrir fólkið okkar og gera það með sóma og sæmd. (Forseti hringir.) Ég skora á okkur öll að standa okkur, ég skora á okkur að gera góða hluti fyrir samfélagið okkar og gera þá núna.