148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum vonandi innan tíðar atkvæði um svokallaðan bandorm sem er hluti af fjárlagafrumvarpinu okkar og verður nauðsynlegt að horfa heildstætt á það. Mig langaði að þakka samstarfið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég á sæti núna í fyrsta skipti, þakka formanninum, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir að stýra þessu starfi vel og þakka gott samstarf við bæði stjórnarliða og stjórnarandstöðuna.

Mér finnst við hafa átt málefnalegar og góðar umræður í þessari nefnd en það ber líka að taka fram að tíminn er afspyrnustuttur. Ég geri ráð fyrir að á næstu misserum munum við hafa meiri tíma til að ræða mál ögn betur og fara betur yfir þau og geri þá ráð fyrir að það sé líklegra að við náum einhverri samstöðu í nefndinni um breytingartillögur.

Við vitum auðvitað öll í þessum sal að hér tökum við ekki afstöðu til einstakra tillagna sem eru þvert á heildarramma fjárlaganna. Þegar rætt er um barnabætur er mikilvægt að halda því til haga að þær eru að hækka, (Forseti hringir.) það er bara verið að leggja til að hækka þær enn meira.