148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er stuttur tími til að tala þannig að ég ætla að bæta við þriðja atriðinu sem ég hafði um þetta að segja.

Nú hefur komið dálítið vel fram í umræðum hérna hverjar ástæðurnar eru, a.m.k. hjá þeim meiri hluta sem hyggst ekki taka undir breytingar á vaxta- og barnabótum. Þær eru í raun efnahagslegar, tekjur gætu komið á móti o.s.frv. En þegar allt kemur til alls, þegar greidd verða atkvæði um þessar tillögur, þætti mér vænt um að heyra frá þingmönnum hvort þeir séu efnislega sammála breytingartillögunum en geti ekki greitt þeim atkvæði í þetta skiptið af efnahagslegum ástæðum en geri það kannski seinna ef efnahagslegar ástæður leyfa.

Mér fyndist ekkert óeðlilegt ef fólk segði þá: Þetta er eðlileg breytingartillaga en við getum ekki farið í hana núna út af einhverjum ytri, efnahagslegum ástæðum þar sem forgangsröðun var önnur.