148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við vorum hér nýlega, bara í gær, að tala um að útrýma fátækt. Þegar sagt er að við eigum að útrýma fátækt kemur stundum svar sem er: Ja, allir eiga að hafa sömu tækifærin. Það dugir sumum að segja það. Vissulega á það við fullorðið fólk sem ræður örlögum sínum upp að einhverju eða verulegu marki. Börn gera það hins vegar hafa ekki. Þegar börn eru fátæk eru engin tækifæri til að nýta. Það þarf einfaldlega að laga. Það felst í því að styðja við foreldra og forráðamenn barna. Tillaga þessi gengur út á það. Mér finnst skammarlegt og það kom mér á óvart að frétta að barnabætur skertust svona langt undir lágmarkslaunum. Mér finnst það stórfurðulegt. Mér finnst augljóst að við eigum að laga það og hvet að sjálfsögðu samþingmenn mína sem eiga eftir að greiða atkvæði til þess að greiða atkvæði með þessari tillögu. Að sjálfsögðu segi ég já.