148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari tillögu. Þegar kemur að vaxtabótakerfinu verðum við að íhuga að við greiðum ekki út vaxtabætur til allra. Þær eru hugsaðar til þess að þjóna sérstaklega þeim sem eru með lægri tekjur og eiga minni eignir. Það er meginpunkturinn. Þetta er jöfnunartæki og þótt vissulega standi til að endurskoða kerfið vekjum við athygli á því að það eru varla til þau kerfi hér sem ekki er verið að endurskoða einhvers staðar. Það er orðið mjög hvimleitt að leggja til nokkrar breytingar án þess að það komi upp: Já, það er verið að endurskoða þetta.

Ég velti stundum fyrir mér hvort ekki væri auðveldara að útlista það sem ekki sé verið að endurskoða en það sem verið er að endurskoða þegar kemur að því að ræða tillögur sem hér eru bornar fram, hvort sem er í nefnd eða á þingi.

Ég styð tillöguna. Þingmaðurinn segir já.