148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég sé á atkvæðatöflunni að það er einhver misskilningur um hvað er verið að greiða atkvæði um. Hér erum við að greiða atkvæði um að fella niður virðisaukaskatt á bókum. Bókaútgáfa á Íslandi er í mikilli vörn, eins og menn þekkja, og tungumálið þar af leiðandi. Í fyrra lífi hæstv. fjármálaráðherra, einnig sem fjármálaráðherra, var skattur á bækur hækkaður. Þáverandi menntamálaráðherra lýsti því yfir opinberlega að hann teldi þetta mjög óheppilegt, það væri liður í stærri skattkerfisbreytingum, og hvatti til þess að þetta yrði síðar endurskoðað og skattur afnuminn af bókum. Ég var sammála þáverandi menntamálaráðherra um það. Nú sýnist mér á stjórnarsáttmála að hæstv. fjármálaráðherra sé kominn inn á þá skoðun að afnema beri virðisaukaskatt af bókum. Og ekki seinna vænna þá að drífa í því núna, ljúka því af, afnema virðisaukaskatt af bókum og þar með töldum hljóðbókum og rafbókum og slíku.

Ég sé að það breytist ekkert á töflunni, herra forseti, [Hlátur í þingsal.] afstaða ráðherranna. Voru þeir ekki að fylgjast með ræðu minni um hvað við (Forseti hringir.) erum að greiða atkvæði?