148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var nú þannig í fyrra lífi hv. 1. flutningsmanns tillögunnar að hann studdi hækkun á bókaskattinum, virðisaukaskatti á bækur. (Gripið fram í.) Ásamt mér og öðrum. En það var auðvitað liður í almennri aðgerð við breytingu á virðisaukaskattskerfinu. Það sem við erum að greiða atkvæði um hér myndi ég fella í flokkinn stríðnistillögu, tillögu sem lesin er upp úr stjórnarsáttmálanum, lögð er fram á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar vegna þess að hún hefur ekki strax komið henni í framkvæmd. En þá er um það að segja að það er ágætt að fá tækifæri til að ræða um þetta mál. Þetta er mikilvægt mál. Ég fagna því að það virðist vera breiður stuðningur við það. (SDG: Nú?) Við sem ekki styðjum tillöguna og erum á móti að þessu sinni, gerum það vegna þess að við erum með heildarplan. Það kemur að því að þessi áætlun okkar um lækkun virðisaukaskatts á þessa málaflokka verði framkvæmd.