148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta mál er bara lagt fram til að minna á að laxveiði er undanskilin virðisaukaskatti. Rökstuðningurinn frá ríkisskattstjóra á sínum tíma árið 1990 var sá að laxveiði væri í raun leiga á fasteignum, að ekki væri verið að selja leyfi til að fara að veiða fisk, að verið væri að leigja fasteign — og undanskilið virðisaukaskatti, sem er náttúrlega fyrirsláttur, eins og allir sjá. Til dæmis getum við haft það þannig að það að fara í golf sé í rauninni leiga á fasteign. [Hlátur í þingsal.] Það sér hver maður að golf er fasteign, lóð, og maður leigir lóðina. Þar af leiðandi getum við undanskilið það virðisaukaskatti, ef ríkisskattstjóri túlkar það svo. Þetta er bara gert til að minna á það. Lokum á það. Það eru 200 milljónir í hús bara með því að efnafólk sem kemst í laxveiði fari að greiða skatt fyrir það.