148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Hér kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra áðan að mikilvægt væri að skapa atvinnuvegunum góð skilyrði til að geta greitt góð laun. Þar sem kjarasamningar standa fyrir dyrum er ekki nema sjálfsagt að standa við samkomulag um lækkun tryggingagjalds sem fjármála- og efnahagsráðherra og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í janúar 2016. Það er það sem lagt er til að gert sé í þessari tillögu. Það kemur mér því á óvart að sjá að hæstv. fjármálaráðherra ætli ekki að standa við yfirlýsingu sína frá því áðan, en það eru enn nokkrar sekúndur til umráða fyrir hann til að skipta um skoðun.

Auðvitað er þessi tillaga gott innlegg í að hér verði auðveldara að ná hagfelldum kjarasamningum, bæði fyrir atvinnulíf og launþega.