148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að rétt ákvörðun hafi verið tekin í sambandi við 2. tölulið, að hann sé dreginn til baka. Það er vert að minnast á að það þýðir að ríkissjóður þarf að fjármagna þetta. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd fékk það athugað. Reikningurinn hljóðar upp á 300 milljónir, sem er ekki mikið í samhenginu. Mér skilst að búið sé að gera ráð fyrir að það verði fjármagnað. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig en vildi halda því til haga því að það er mjög mikilvægt. Ef þessi breyting er gerð án þess að fjármagnað sé á móti eða tryggt að fjármagnið komi hefur það þau áhrif að það dregur úr möguleikum skólanna til að bjóða upp á þetta nám. Það held ég að hljóti að vera eitthvað sem enginn hér inni vilji. Ég ætla að vera bjartsýnn á að þessi fjármögnun fáist í samræmi við það stutta samtal sem ég hef átt við annan hv. þingmann um efnið.

(Forseti (SJS): Þótt sagt hafi verið á sinni tíð að allir vildu Lilju kveðið hafa er mikilvægt að þar sé um rétta Lilju að ræða. Hér átti í hlut Lilja Alfreðsdóttir, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem óskaði eftir að gera grein fyrir atkvæði sínu eða ræða um atkvæðagreiðsluna.)