148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

veiting ríkisborgararéttar.

75. mál
[12:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nefndin setti sér málsmeðferðarreglur sem miða að því að sýna mannúð. Það er alveg rétt að lög um ríkisborgararétt hafa galla sem þarf að laga. En eftir að hafa verið í undirnefnd sjálfur á síðasta kjörtímabili get ég fullyrt að ferlið verður alltaf þarft þótt það sé ekki gallalaust, vissulega ekki, vegna þess að mannlegt samfélag og mannlegt líf er einfaldlega þannig að það er ekki hægt að taka tillit með almennum lögum til allra þeirra hluta sem geta komið fyrir manneskju og haft áhrif á sanngjarna og nauðsynlega málsmeðferð í málefnum hennar.

Hvað varðar gegnsæispunktinn hjá hv. þingmanni: Píratar tala líka um friðhelgi einkalífsins. Þetta eru mjög persónuleg mál sem varða mjög persónulegar upplýsingar. Gjörvallt líf fólks. Það er alls ekki við hæfi að mínu mati að kalla eftir gegnsæi þegar kemur að einkamálefnum fólks (Forseti hringir.) í þeim málaflokki. Reglurnar eiga að vera skýrar, eins skýrar og mögulegt er. En ferlið, með þeim göllum sem því fylgja, (Forseti hringir.) er nauðsynlegt að svo stöddu og ég held að það verði það mjög lengi.