148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2017.

76. mál
[13:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2017. Gengið var frá samningnum með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 2. júní og 26. júlí 2017. Í samningnum er fyrirvari um að veiðiheimildir færeyskra skipa í íslenskri lögsögu loðnuvertíðina 2017/2018 verði bundnar því skilyrði að íslenskum skipum séu jafnframt heimilar veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja á árinu 2018.

Samningur þessi kveður á um heimildir landanna til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2017.

Samningurinn kveður einnig á um loðnuveiðar Færeyinga í íslenskri lögsögu fyrir vertíðina 2018.

Færeysk skip fá heimild til að veiða 30 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á loðnuvertíðinni 2017/2018 eða minna, eftir því hver leyfilegur heildarafli verður. Færeyskum skipum er auk þess heimilt að veiða allt að 10 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld innan lögsögu hins á þessu ári.

Loks gerir samningurinn ráð fyrir að íslenskum skipum séu heimilaðar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og tvö þús. lestum af síld, annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á þessu ári.

Tekið skal fram að áður en samningur þessi var gerður á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands var ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2017. Heildarafli þorsks verður þó ekki meiri en 2.400 lestir. Heildarafli keilu verður ekki meiri en 650 lestir og engar veiðar eru heimilaðar á lúðu eða grálúðu.

Lagt er til að gerður sé sá fyrirvari við staðfestingu samningsins að samningar náist um veiðar íslenskra skipa á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja á árinu 2018. Í fyrirvaranum felst einhliða yfirlýsing Íslands um að gildistaka samningsins verði háð því að samið verði um að íslenskum skipum séu jafnframt heimilaðar veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja á árinu 2017. Án samkomulags við Færeyjar munu íslenskum skipum ekki verða heimilaðar veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja á árinu 2018. Undanfarin ár hafa íslensk skip veitt um 89% af heildaraflaheimildum sínum í kolmunna innan lögsögu Færeyja. Þessi aðgangur er því íslenskum útgerðum mikilvægur.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.