148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:25]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að við byrjuðum árið á því að kalla eftir viðbrögðum ráðherra við þeim veikleikum sem komu þar fram, en það var bara eins og ráðuneytin væru ekki að hlusta. Þau svöruðu einfaldlega, þegar kallað var ítrekað eftir svörum, að þau ætluðu bara að fara í fjárauka hvað veikleikana varðaði. Þau svör komu mjög fljótlega fram á árinu. Tvímælalaust brást eftirlitið á seinni helmingnum og náttúrlega í september með framkvæmd fjárlaga af skiljanlegum ástæðum kannski, en kannski hefði samt átt að halda því til streitu.

Ég spurði ráðuneytið um útskýringar og rökstuðning fyrir hverri heimild sem væri verið að leita eftir í fjáraukalögum. Svarið kom en alls ekki með þeim rökstuðningi sem útskýrði af hverju viðkomandi fjárheimild kæmi óvænt upp á, væri tímabundin eða uppfyllti þessi skilyrði sem fjárauki þarf að hafa samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þess vegna segi ég einfaldlega að ekki sé verið að fara eftir lögum af því að ekki hefur verið útskýrt af hverju vissar heimildir í fjáraukanum, sumar eru augljósari en aðrar, þ.e. af hverju verið er að setja þær heimildarbeiðnir fram í fjáraukanum í staðinn fyrir að koma bara með það sem hallar yfir á næsta ár í málaflokknum eins og lögin gera ráð fyrir. Það er þess vegna sem ég segi að verið sé að fara gegn lögunum og það sé ekki einu sinni verið að reyna að fara eftir lögunum þegar síðan á það er bent.