148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara aftur fram að ég er í sjálfu sér ósammála túlkun hv. þingmanns á lögmæti þeirra heimilda sem nú er verið að sækja. En ég tek aftur á móti undir með honum og tek undir áhyggjur hans að of snemma var farið í þann farveg af hálfu ráðuneyta í eftirfylgni hv. fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili að ráðuneytin sögðust ætla að sækja sér í fjáraukalögum heimildir. Það er ósiður sem við í hv. fjárlaganefnd þurfum líka að vinna á og í góðu samstarfi við hæstv. fjármálaráðherra sem ég veit að mun takast.

Varðandi það mál sem við spyrntum hvað fastast í ístöðin með og ég lýsti því í framsögu minni áðan varðandi málaflokka á málefnasviði hæstv. dómsmálaráðherra, þá var það ljóst að við setningu fjárlaganna fyrir árið 2017 og hefur verið staðfest síðan í yfirferð okkar og ráðuneytis á því máli að þar var um vanmat að ræða sem ekki var hægt að bregðast við með öðrum hætti en þeim sem þar var gert.