148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðu hans og framsögu. Ég vil segja fyrst að það var ákveðinn samhljómur með ræðu hv. þingmanns og ræðu og framsögu hv. þm. Haraldar Benediktssonar, sem var framsögumaður meiri hluta og fór yfir málið á undan hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Þegar ég segi samhljómur þá kom skýrt fram í máli hv. þm. Haraldar Benediktssonar og framsögumanns að þessi fjárauki hér við mjög sérstakar kringumstæður, sem hann rakti mjög vel, er ekki fordæmisgefandi varðandi umræðu, úrvinnslu, verklag og ekki síður samspil varasjóða og fjáraukalaga, sem hann greindi jafnframt vel frá. Mér fannst hv. þm. Björn Leví að sama skapi fara mjög vel yfir það. Ég held að flestallir ef ekki allir í hv. fjárlaganefnd séu sammála um þann þátt.

Ég er ekki með neina sérstaka spurningu til hv. þingmanns heldur vildi nota tækifærið og þakka honum fyrir mjög gott framlag og gagnrýni á málið. Við eigum að vera gagnrýnin þegar við förum yfir fjáraukalagafrumvarp og úrvinnslu þess. Ég kem mögulega með spurningu í seinna andsvari.