148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir vangaveltur, skulum við segja, og mjög miklar kjarnaspurningar í þessu. Af hverju ekki að setja niður fótinn og samþykkja hreinlega ekki það sem fyrir liggur, fara að lögum um opinber fjármál og máta hvert einasta atriði inn í, hvort um tímabundin, ófyrirséð eða óhjákvæmileg útgjöld sé að ræða? Það er auðvitað verkefni hv. fjárlaganefndar.

Hv. þingmaður benti jafnframt á að þetta er í fyrsta skipti sem við vinnum innan þess lagaramma með fjáraukalagafrumvarp. Þá vil ég bæta við að okkur hefur ekki enn tekist að komast inn í það ferli að vinna eftir ríkisfjármálastefnu og ríkisfjármálaáætlun og fjárlögum í réttri röð og síðan samspili varasjóða, notkun varasjóða. Enn fremur á eftir að hanna það regluverk og hreinlega leiðbeina hæstv. ráðherrum um notkun varasjóða. Það er verkefni nefndar okkar og mjög mikil áskorun hv. fjárlaganefndar að taka þetta verklag áfram.

Í því samhengi vil ég jafnframt benda á að þegar við mátum þetta áfram, og þá reynir hvað mest á eftirlitshlutverkið sem hv. þingmaður ræddi ágætlega í framsögu sinni, verður það aldrei slétt og fellt. Þar sem rekstur er í eðli sínu dínamískur á móti efnahag sem er statískur verðum við oft að rekast á um ákvarðanir sem gerast á heilu ári inni í þessum ramma. Ég held að því sé ekki lokið að hv. nefnd þurfi að takast við þau sjónarmið hvaða ákvarðanir eru teknar fyrir fram (Forseti hringir.) og svo eftir á. Þá reynir á eftirlit og samspil við varasjóðina.