148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ekki sammála honum um það að þessi hluti, þ.e. fjáraukahluti ferlisins, sé öðrum reglum háður en ferlið allt. Þetta hangir allt saman. Ráðuneytin eru í mikilli vinnu og stofnanirnar eru í mikilli vinnu. Það er bara þannig að það fellur ýmislegt út af sem betur hefði mátt fara ef við værum komin á tærnar með þetta allt saman. Það er mín skoðun að minnsta kosti.

Við getum ekki dregið eitthvað eitt út úr menginu, finnst mér. Þetta hangir allt saman, fjárlög, fjáraukalög, ríkisfjármálaáætlun, stefnumótun innan ráðuneyta og innan stofnana og allt þetta. Við vitum að bæði stofnanir og ráðuneyti voru misvel í stakk búin til að takast á við þetta og við sáum það líka í fyrra.

Ekki má horfa fram hjá því, þó að enginn sé að skýla sér á bak við hina pólitísku stöðu, að okkur hefur ekki enn tekist að ganga í gegnum ferlið í heild sinni eins og því er ætlað að virka. Vonandi tekst það núna.

Hvað varðar aðra þætti, samgöngumál og annað slíkt, má eflaust gagnrýna það sem þar er inni eins og þetta með vísitölubindinguna og allt það. Þess vegna segi ég: Það er klárlega eitthvað á gráu svæði hér sem betur hefði mátt fara.

Varðandi sauðféð þá getum við heldur ekki horft fram hjá því að áður, þegar atvinnugreinar hafa lent í slíkum áföllum sem sauðfjárræktin, hefur verið brugðist við. Búvörusamningurinn er hinn hefðbundni stuðningur algjörlega utan við þetta. Þegar 45% verðfall verður á tveimur árum þarf augljóslega að bregðast við með öðrum hætti, þá dugar hið hefðbundna framlag ekki.