148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gríp hérna tækifærið vegna þess að ég var að glugga í þetta skjal, sem ég verð að viðurkenna að hafa ekki haft færi á að kynna mér jafn vel og ég vildi á þessum tímapunkti í umræðunni. Þá rak ég augun í málaflokkinn 10.20 Trúmál. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni þessa fjárheimild upp á 550 millj. kr. til þjóðkirkjunnar vegna svokallaðs kirkjujarðasamkomulags og nefndi að það hefði þótt eðlilegt að svo væri. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hv. þingmann hvort hún geti útskýrt það aðeins betur hvers vegna þetta sé ekki á fjárlögum.

Hitt er síðan, vegna þess að hér kemur einnig fram og ég velti fyrir mér hvort þetta hafi verið rætt, hvort hv. þingmaður geti frætt mig og aðra um annað, því að hér kemur fram að einhver samskipti séu í gangi einhvers staðar við þjóðkirkjuna um hvernig fjárhagslegu sambandi ríkiskirkjunnar við ríkið verði í framtíðinni. Þetta veldur mér alltaf pínulitlum áhyggjum ef það er svo. Það er einhver að tala við einhvern, og ég veit ekki um hvað, út af því hvernig fór með kirkjujarðasamkomulagið, einn óheiðarlegasta samning sem ég veit um, vegna þess að þá voru tæmandi eignir settar á móti ótæmandi að því er virðist launum, sem munu vara að eilífu. Ég er ofboðslega tortrygginn út í slíkar samningaviðræður með hliðsjón af því sem fólk hefur leyft sér að gera í fortíðinni í sambandi við þetta kirkjujarðasamkomulag. Ég hef miklar áhyggjur af því að gerð verði önnur tilraun til að festa betur í sessi þessa fráleitu tengingu ríkiskirkjunnar við ríkið. Það eru kannski meira mínar skoðanir, er svo sem ekki að spyrja hv. þingmann út í það.

Mig langar að vita allt sem ég get um þessar umræður, kom eitthvað fram um hvar þær standa, hvernig þeim kemur til með að ljúka, eða í hvaða átt er verið að fara með málið?