148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og skoðanir hans sem mér eru vel kunnar. Ég er alveg sammála honum í því að auðvitað er þetta fyrst og fremst málefni fjárlaganefndar því að það er þaðan sem fjármunirnir þurfa að koma til þess að uppfylla það samkomulag sem hér er verið að reyna að ná.

Ég ætla svo sem ekkert endilega að tjá mig um hvað mér finnst um það samkomulag sem hér er undir. Ég hef ekki séð það í sjálfu sér þannig að ég get ekki tjáð mig að öðru leyti en því sem fram kemur í fylgiskjalinu með fjáraukalögunum. En ég er alveg sammála þingmanninum að við þurfum að fá að fylgjast með, við þurfum að fá að fylgjast með í hvaða átt verið er að fara. Ég tek alveg undir það, mér finnst það ekkert óeðlilegt. Við þekkjum þá umræðu að fækkað hefur mjög í kirkjunni frá því þetta samkomulag var gert 1997. Það var með gólfi. Það mátti aldrei fara niður fyrir ákveðin mörk. En eins og ég segi, ég þekki ekki hvernig staðan á því er í dag eða nákvæmlega hvort verið er að tengja saman kirkjujarðasamkomulagið og sóknargjöldin eða hvað.

Mér finnst hvort tveggja vera eitthvað sem við þurfum að horfa á í hinu stóra samhengi, hvernig með þetta verður farið. Ég hef trú á því að formaður fjárlaganefndar og aðrir í nefndinni séu alveg tilbúnir til þess að koma að því að fá að fylgjast grannt með hvernig þetta samkomulag gengur, þ.e. vinna við að ná þessu samkomulagi áður en til niðurstöðu kemur, ef við getum sagt sem svo.