148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Það er svolítið merkilegt með þetta frumvarp að það er frumvarp sem enginn vill í rauninni sjá, sýnist mér. Allir vísa til þess að það ætti ekki að birtast með þeim hætti sem það gerir hér. Því þetta er vont frumvarp sem við eigum ekki að sjá. Það er ekki í samræmi við ný lög um opinber fjármál.

Ég man þegar ég kom í þennan sal fyrir 15 árum fyrst, þá var einmitt verið að ræða svipaða hluti. Það var verið að gagnrýna misnotkun framkvæmdarvaldsins á fjáraukalögum. Ef það var misnotkun, hvað er það þá núna? Í millitíðinni erum við búin að samþykkja góð lög, að uppistöðu til, lög um opinber fjármál sem áttu einmitt að gera fjáraukalög að algerri undantekningu. Það eru ákveðin skilyrði um útgjöld sem þarf að uppfylla. Útgjöld sem rúmast ekki innan fjárlaganna, sem ekki er hægt að mæta með varasjóðunum, annars vegar varasjóði málefnasviðs eða hinum almenna varasjóði, og eru til viðbótar óhjákvæmileg, tímabundin og ófyrirséð. Ef við lítum bara á lögin og færum eftir þeim þá værum við ekki að ræða frumvarp til fjáraukalaga upp á 25 milljarða kr. Það er litlu minna en það sem við setjum í allt framhaldsskólastig landsins. Það er sömuleiðis litlu minna en við setjum í háskólana. Það er meira en við setjum í löggæsluna, Landhelgisgæsluna, ákæruvaldið, fullnustumálin o.s.frv. Þetta eru ekki litlar upphæðir. Ekki upphæðir sem við getum með nokkru móti réttlætt að eigi heima í frumvarpi til fjáraukalaga.

Ég veit eftir að hafa setið í fjárlaganefndinni að meiri hlutinn er að uppistöðu sammála þessu. Ég bind miklar vonir við að fjárlaganefndin sameinist um að senda skýr skilaboð til framkvæmdarvaldsins um að við viljum aldrei sjá svona aftur, aldrei frumvarp til fjáraukalaga upp á 25 milljarða kr. Nema uppfyllt séu skilyrði um að útgjöld séu óhjákvæmileg, ófyrirsjáanleg og tímabundin og að varasjóðirnir hafi verið nýttir.

Ríkisendurskoðun kom á fund fjárlaganefndar og var ósköp hreinskilin eins og henni er gjarnt að vera og á að vera. Hún orðaði það einhvern veginn þannig að í enn eitt skiptið væri verið að stilla þinginu upp við vegg. Enn eitt skiptið er verið að stilla okkur þingmönnum, löggjafarvaldinu — fjárveitingavaldið liggur hérna megin í salnum, ekki þarna — upp við vegg. Það er búið að ráðstafa og jafnvel greiða fyrir þær framkvæmdir sem koma fram í frumvarpinu. Við vitum alveg hvað segir í 41. gr. stjórnarskrárinnar varðandi greiðslur úr ríkissjóði án heimilda í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Ríkisendurskoðun vakti sérstaklega athygli á að þetta er hár fjárauki, 25 milljarðar. Hún vakti líka athygli á því að þetta frumvarp til fjáraukalaga kemur óvenju seint. Aðstæðurnar voru jú óvenjulegar en það hefði engu að síður getað komið fyrr. Það kemur rétt fyrir jól að mig minnir.

Við í nefndinni ræddum heilmikið um nýtingu þessara svokölluðu varasjóða. Þetta er ekki eitthvert tæknilegt atriði heldur skiptir það máli. Samkvæmt lögum um opinber fjármál eru þessi úrræði, þ.e. varasjóðir málaflokka, 37 talsins upp á tæplega 900 milljónir og svo erum við með almenna varasjóðinn. Hann er upp á tæpa 8 milljarða. Ráðherrar eiga að nýta varasjóðina til að mæta óvæntum útgjöldum sem óhjákvæmilega verða stundum. Ég átta mig fyllilega á því. En hafi ég nú punktað rétt hjá mér og lesi rétt minnisblaðið frá fjármálaráðuneytinu er einungis búið að nýta 3% af varasjóðum málaflokkanna. Ef við síðan lítum á almenna varasjóðinn sem er stærri, tæpir 8 milljarðar, er einungis búið að nýta um 22% af honum.

Auðvitað veltir maður fyrir sér af hverju þessi úrræði séu ekki nýtt fyrst, áður en okkur er rétt þetta yndislega frumvarp til fjáraukalaga upp á 25 milljarða. Jú, það er sagt að ráðuneytin séu kannski ekki alveg komin í gírinn og það þurfi einhvern aðlögunartíma o.s.frv. Aðlögunartíminn hefur verið nægur. Þetta er árið sem við hefðum ekki átt að sjá svona frumvarp til fjáraukalaga. Ég veit að þingmenn eru sammála þessu. Þess vegna skiptir máli, hvort sem við erum í minni eða meiri hluta, að við sendum skýr skilaboð til stjórnsýslunnar um að þetta verði ekki liðið. Við viljum starfa samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það skiptir máli. Við þurfum aga í ríkisrekstri, þurfum vandaða áætlanagerð og við megum ekki skammta ríkisstofnunum með þeim hætti að við vitum að þær lendi í vandræðum. Það er lenska hér. Það er bent á það í þessum sal að það vanti pening í spítalann eða til að mæta hælisleitendum eða fjölgun öryrkja eða í lyfjamál. Síðan ákveður framkvæmdarvaldið með stuðningi meiri hluta síns í þingsal að skammta of lítið fé. Þá lenda viðkomandi stofnanir að sjálfsögðu í vandræðum. Það eru ekki ófyrirséð útgjöld heldur einmitt fyrirséð. Þetta eru ekki deilur um keisarans skegg, þetta eru ekki hártoganir, þetta skiptir máli. Lögin eru skýr hvað þetta varðar. Óhjákvæmileg, tímabundin og ófyrirséð útgjöld.

Það kom sömuleiðis fram, að ég held hjá forsvarsmönnum bænda sem var nú eini hagsmunahópurinn sem kom til fjárlaganefndar þegar við ræddum um fjáraukalögin, að það væri pólitísk ákvörðun að setja ýmis útgjöld í fjáraukalögin en ekki fjárlögin. Það er kolröng hugsun. Það á ekkert að vera pólitísk ákvörðun hvorum megin útgjöldin liggja, í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þannig að ég vil lýsa því yfir úr þessum stóli að það er ekki rétt.

Ég tók líka eftir því þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um þetta í 1. umr. að hann orðaði það einhvern veginn þannig að þetta væri oft bara spurning um hvernig við bókuðum útgjöldin. Nei, það er rangt. Þetta er ekki eitthvert bókhaldstrix eða -fiff sem við erum að uppfylla. Það skiptir máli að gera þetta rétt.

Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu er talað um að í frumvarpinu sé almennt séð ekki um að ræða tillögur um ný verkefni. En það eru víst ný verkefni í þessu frumvarpi. Það er aukin landvarsla á vegum umhverfisráðuneytisins. Hún á heima í fjárlögum. Við eigum ekki að setja svoleiðis ný verkefni í fjáraukalög. Hér eru vitaviðgerðir, hafnarviðgerðir. Hvaða vitleysa er að setja það í fjáraukalög? Ef menn hafa pólitíska sannfæringu um að það þurfi að laga einhverja vita eða hafnir eða auka landvörslu, þá á að setja það í fjárlögin. Til þess eru þau. Fjárlagafrumvarpið er enn opið, við erum ekki búin að loka því.

Samgöngumál eru stór hluti af þessu, 1,2 milljarðar. Eins og ég gat um í 1. umr. eru samgöngumál eitt mest rædda mál í þessum sal. Ef menn vilja setja 1,2 milljarða í samgöngumálin, í brýn verkefni, setjið það bara í fjárlögin. Takið þá pólitísku ákvörðun að setja það í fjárlögin. Ekki vera að lauma þessu svona inn, ef svo má segja, í fjáraukalögin.

Mig langar að nefna nokkur önnur verkefni sem vekja auðvitað spurningar um á hvaða vegferð þessi meiri hluti er. Þetta er auðvitað ekki í anda nýrra vinnubragða sem við bíðum öll spennt eftir. Hér er af nógu að taka. Trúmálin voru nefnd. 550 millj. kr. vegna samkomulags við kirkjuna. Þetta var líka gert í fjáraukalögum 2015 og 2016. Við spurðum: Hvað gerist ef við setjum þetta á fjárlögin, tökum þetta úr fjáraukalögunum? Við getum gert það. Ja, þá kemur það á næsta ári. Hver er ófyrirsjáanleikinn í þessu? Það er enginn ófyrirsjáanleiki. Það er svo augljóst að hér er verið að misnota fjáraukalögin. Ég hefði miklu frekar viljað sjá þetta tekið út úr fjáraukalagafrumvarpinu. Við getum gert það, við höfum enn þá löggjafarvaldið, og getum sett þetta í fjárlögin ef við viljum það.

Sauðfjárbændur. Bændur er hópur sem getur fengið sitt frá þessari ríkisstjórn, ólíkt öðrum hópum í þessu samfélagi. 666 milljónir til að mæta vanda sauðfjárbænda. Þrátt fyrir 5 milljarða sem fara til þeirrar stéttar. Af hverju er þetta ekki sett í fjárlögin? Jú, eins og forsvarsmaður bænda, sem ég gat um áðan, sagði: Það er pólitísk ákvörðun að setja þetta í fjáraukalögin en ekki fjárlögin. Það er mjög sérkennilegt, að setja tæplega 700 milljónir í eina stétt.

Þetta á að vera hluti af miklu stærri umræðu. Við þurfum að taka þá umræðu af einhverri dýpt í þessum sal, á hvaða vegferð við erum með landbúnaðarkerfið. Við erum á rangri vegferð, við erum með dýrt landbúnaðarkerfi sem hvorki bændur né neytendur hagnast á. Þetta vita allir. Við þurfum að komast upp úr þessum hjólförum gamaldags hugsunar, einhverrar Framsóknarhugsunar, afsakið, um hvernig við nálgumst landbúnaðinn. Ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði. Við skulum hjálpa honum að standa á eigin fótum og hugsa kerfið upp á nýtt þannig að bæði bændur og neytendur hagnist á því. Við erum með dýrt landbúnaðarkerfi. Landbúnaðarkerfi Evrópusambandsins, sambandi sem ég er nú frekar hrifinn af, er vitlaust en okkar er enn vitlausara. Ég hlakka til þeirrar umræðu að við getum verið samferða í að bæta hag bænda og neytenda. En í enn eitt skiptið erum við að setja einhvern plástur, frekar dýran, 700 milljónir, og gera það með rangri aðferð, nota fjáraukann sem við eigum ekki að gera.

Höldum aðeins áfram. Ég gat um samgöngumálin sem auðvitað eiga ekki heima hér. Stundum sér maður einstaka tölur sem eru mjög háar. Hér er gert ráð fyrir 400 milljónum í Herjólf. Helmingurinn af því gæti kannski talist ófyrirséður og orsakast af því að Herjólfur fór í slipp og það þurfti að leigja ferju. En hinn helmingurinn, hinar 200 milljónirnar, á miklu frekar heima í fjárlögum. Þannig að oft eru tölurnar í þessu plaggi útbólgnar. Þetta er eins og með fjölgun öryrkja. Hér er verið að setja 2,2 milljarða vegna fjölgunar öryrkja. Þetta er svo há tala. Auðvitað átta ég mig á að það getur verið erfitt að meta fjölgun eða fjölda öryrkja en þetta er svo langt frá allri áætlanagerð, þetta er svo viljandi vanáætlað liggur mér við að segja. Jú, auðvitað getur verið erfitt að meta fjölgunina en ekki svona mikið. Ég held að allir í þessum sal sjái það.

Lyfin er annað dæmi. Þau eru fastur gestur í frumvarpi til fjáraukalaga. Það eiga ekki að vera neinir fastir gestir þar, eðli málsins samkvæmt, það er eitthvað óvænt sem lendir þar. En lyfin eiga samt alltaf sinn sess í fjáraukalögum. Aftur er það vísbending um að við séum að misnota fjáraukalögin og höfum gert það sama hvaða ríkisstjórn er við völd, mér er alveg sama um það. En nú er nýtt þing, það eru komin ný lög: Breytum þessu. Þá þurfum við óbreyttir alþingismenn að standa í lappirnar og standa saman, hvort sem við erum í minni hluta, meiri hluta, hægri, vinstri, miðja, skiptir engu máli og sameinast gegn stjórnsýslunni, framkvæmdarvaldinu, og breyta þessu. Sýna í verki að löggjafarvaldið er hjá okkur, fjárveitingavaldið er hjá okkur. Við þurfum ekki að sækja okkur leyfi hjá ráðherrunum. Auðvitað veit ég alveg hvernig pólitíkin virkar á Íslandi, hér er mikið ráðherraræði, en breytum þessu. Við höfum öflugt vopn í þeirri baráttu, það eru lög um opinber fjármál. Ég bind miklar vonir við að fjárlaganefnd sameinist um að fara í þann leiðangur. Ég veit að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar hefur efnislega tekið undir þetta. Ég þakka það. Ég held að hann sé einlægur í þeirri viðleitni að þessu verði breytt.

Svo eru önnur dæmi hér. Ég ætla kannski ekki að fara yfir þessi mál endalaust. Stofnframlögin til íbúðamála, aðildargjöld til Farice, o.s.frv. Það er af nógu að taka um atriði sem eiga augljóslega heima í fjárlögum og fullt af gráum svæðum. Auðvitað er ég ekkert að segja að fjáraukalögin ættu að vera núll. En 25 milljarða fjáraukalög eru alveg út úr öllu korti.

Að sjá liði sem koma síendurtekið eins og lyfin og annað, það þarf ekki einu sinni að segja að það er ekki í samræmi við lögin.

Ég ætla að láta þetta duga og lýsa aftur óánægju minni yfir þessari framkvæmd, óánægju gagnvart ráðuneytunum, ráðherrunum og í rauninni svolítið gagnvart okkur, að við séum ekki að gera eitthvað í þessu. Af hverju breytum við ekki einhverju í þessu frumvarpi? Meiri hlutinn leggur ekki til að verkefni hér séu annaðhvort tekin út eða færð yfir í fjárlögin. Það er eins og þingið þurfi aðeins meiri tíma til að safna í sig kjarki. En við skulum alla vega hafa þennan kjark á næsta ári. Höfum þennan kjark og sameinumst í því að 25 milljarða kr. fjáraukalög muni aldrei sjást aftur í þessum sal.