148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns. Ég ætla aðeins að koma inn á þau meginfrávik sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir og svo tiltekin verkefni. Ég tek undir að það hefði verið æskilegt að hafa meiri tíma til að máta tiltekin verkefni betur innan ramma laganna og þeirra skilyrða sem þau setja okkur. Ef við förum yfir stóru fjárhæðirnar er þriðjungur af þeim meginfrávikum í uppkaupum á skuldabréfum í erlendri mynt. Það er um 1/3 af heildarfjárhæðinni. Svo er 1/3 til velferðarmála, sjúkratrygginga og almannatryggingakerfisins, lyfjakaupa. Það er auðvitað ákveðið verklag í kringum það, lyfjagreiðslunefnd o.s.frv. og mikið af nýjum og dýrum lyfjum sem ekki er hægt að sjá fyrir. Ætli það megi ekki segja að meginfrávikin falli innan ramma laganna um opinber fjármál og inn í fjáraukann.