148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er vissulega þetta flókna samspil við ákvæði stjórnarskrárinnar. Það sem hv. þingmaður vísaði í varðandi bótaskylduna var í kringum trúmálaumræðuna sem er einmitt ekki ófyrirsjáanleg. Við vorum í nákvæmlega sömu sporum 2015 og ég var í þessum sömu sporum 2016 í fjáraukanum; í raun nákvæmlega sama upphæð.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom í andsvörum áðan inn á hvernig þetta virkar. Það er mjög flókið, en á ekki að vera flókið. Það er kannski vandamálið.

Mig langaði líka að benda á grein varðandi utanríkismál, þróunarsamvinnu vegna jarðskjálfta á Grænlandi, þar sem sagt er að það sé ríkisstjórnin sem hafi samþykkt að gera eitthvað. En hér er liður í fjárlögum sem heitir ríkisstjórnarákvarðanir og er upp á 173 millj. kr.; ég veit ekki hvort búið er að greiða hann eða ekki. En ég hefði haldið að þetta dytti á þann lið, sem halli á þann lið eða eitthvað því um líkt, en ekkert endilega í fjáraukalög. Þetta er sérstök (Forseti hringir.) ríkisstjórnarsamþykkt en ekki eitthvað sem kom tilfallandi sem slíkt og hefur með fjárauka að gera.