148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég kom fyrst á þing „lenti“ ég af og til í því að vera áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd á þeim tíma. Við Píratar höfðum ekki nefndarmann. Þá voru nokkrar umræður í byrjun sem snerust um hver bæri ábyrgð á að fara eftir fjárlögum. Er það ráðherrann, tilteknar stofnanir eða þingið? Mig minnir að umræðan hafi endað þannig að ábyrgðin hlyti að vera hjá ráðherra. En hvað svo? Svo ekkert.

Mér finnst þetta var í raun og veru eins. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að við hefðum öflugt vopn sem eru lög um opinber fjármál. Ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála hv. þingmanni. Ég held ekki að þau séu öflugt vopn. Lögin eru mjög skýr, í 26. gr., sem hv. þingmaður fór yfir sjálfur segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim …“

Eins og ég les þetta sem aumur þingmaður sé ég ekki að ráðherra sé yfir höfuð heimilt að stinga upp á því þegar ljóst er að þetta eru ekki ófyrirséð, tímabundið eða óhjákvæmileg útgjöld. Með hliðsjón af því velti ég fyrir mér: Ef maður ætlaði að komast að niðurstöðu með einhverju ferli þar sem væri metið að þessar tillögur stæðust ekki lögin, ráðherra mætti ekki leita eftir þeirri heimild, hvað getum við gert til að koma einhverju slíku ferli á? Ég sé ekki að við höfum neitt annað vopn en að nöldra hérna aðeins í pontu yfir því, sem er árlegur viðburður, nánar tiltekið þegar fjáraukalögin koma fram, undantekningalaust eftir því sem ég best veit. Mér finnst við þurfa einhver betri tæki. Kannski ætti það að vera nefndin, ég veit ekki, óháður dómstóll eða hvað. En eitthvað þarf að gera (Forseti hringir.) til þess að menn taki ábyrgð á þessu. Ég velti fyrir mér sem nefndarmaður í fjárlaganefnd hvort hv. þingmaður hafi einhverjar hugmyndir í þeim efnum.