148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:34]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er mjög áhugaverð spurning. Eftirlitshlutverki er sinnt af nokkrum aðilum, að sjálfsögðu af þinginu, fjárlaganefnd og öðrum fagnefndum. Við þurfum að vera miklu „próaktífari“ í því. Ég held að við séum alveg sammála um það. Við þurfum að efla eftirlitshlutverk þingnefnda. En svo vill til að það eru tvær stofnanir sem ekki heyra undir framkvæmdarvaldið, þær heyra undir þingið. Það er Ríkisendurskoðun og Umboðsmaður Alþingis. Þegar þær stofnanir voru settar á fót var það með ráðum gert að láta þær heyra undir Alþingi. Þær mega ekki vera undir framkvæmdarvaldi. Þetta eru einu stofnanirnar sem eru undir Alþingi. Hinar stofnanirnar eru undir framkvæmdarvaldinu. Af hverju er það svo? Vegna þess að Ríkisendurskoðun og Umboðsmaður Alþingis eiga að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þar eru bandamenn okkar í þessum sal við að hafa hér ríkt eftirlit með því að lög séu virt, að fjárlögin séu virt.

Ég sagði í ræðu minni að ég teldi lög um opinber fjármál vera öflugt vopn í bættum vinnubrögðum og ég er enn þá á þeirri skoðun, sérstaklega vegna þess að í þeim lögum koma fram þríþætt skilyrði og það þarf að uppfylla þau öll; það þarf að vera ófyrirséð, tímabundið og óhjákvæmilegt. Það er öflugt vopn. Þess vegna get ég sagt hér: Þessar 700 milljónir til bænda eða 550 milljónir til kirkjunnar uppfylla ekki skilyrði laganna. Það er það sem ég átti við þegar ég kallaði þessi lög öflugt vopn.

En eins og margt í samfélagi okkar þurfum við bara að auka aga, bera aukna virðingu fyrir lögunum, virðingu fyrir fjárveitingavaldinu. Tökum það svolítið hátíðlega að fjárveitingavaldið liggur hérna megin en ekki þarna megin. Sameinumst í því að vera svolítið kröfuhörð á ráðherrana okkar, hvort sem það er þessi ríkisstjórn eða önnur. Komumst upp úr hjólförum „amatörisma“, vanáætlana og reddinga.