148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er hjartanlega sammála þingmanni og get meira að segja tekið undir að þetta sé öflugt vopn í þeim skilningi að það er miklu skýrari rammi en það sem var áður. Eftir stendur þetta með framfylgdina.

Mér sýnist að það sé líka ákveðið pólitískt vandamál að laga það. Hér talar hv. þingmaður um að þetta séu fjáraukalög upp á 25 milljarða. Myndi það þá ekki þýða, ef við gefum okkur barnslega að öll sú upphæð, eða segjum bara 10 milljarðar af henni, hafi verið fyrirséð. Veljum einhverja tölu af handahófi. Þá hefði á sínum tíma þurft að skila fjárlagafrumvarpi, væntanlega, sem væri með 10 milljarða minni afgangi. Ef það á að fara að snúa af þeirri braut sem er orðin einhvers konar hefð og vani, að fjáraukalög séu notuð eins og hv. þingmaður lýsir, þarf að koma til ríkisstjórn eða fjármálaráðherra sem leggur til fjárlagafrumvarp og segir: Við verðum að hætta þessu fjáraukalagastússi og þess vegna er afgangurinn bara ekki það mikill þetta árið. Til þess held ég að þurfi (Forseti hringir.) ákveðinn pólitískan kjark, en ég held að það þurfi líka ákveðinn skilning ef sú leið yrði farin af hálfu þeirra sem annars myndu gagnrýna það.