148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga. Mér heyrist nú að heilt yfir séu minni hluti og meiri hluti fjárlaganefndar nokkuð sammála um alvarleika málsins en kannski mismikill vilji til að gera eitthvað í þessu.

Ef við horfum kalt og yfirvegað á stöðuna held ég að við séum í skjóli þeirrar afsökunar að hér séu svo óvenjulegar kringumstæður, stuttur tími o.s.frv., að strauja algerlega yfir lög um opinber fjármál. Ég held að þingið ætti þá bara að gera það upp við sig á næsta ári hvort það vilji endurskoða þessi lög og slaka á þeim kröfum sem þar eru gerðar ef ætlunin er ekki að fara eftir þeim hvort eð er, eða hvort grípa eigi til einhverra annarra ráðstafana til að tryggja að framkvæmdarvaldið vinni eftir löggjöfinni. Því að ljóst er þegar við förum í gegnum fjárlagaumræðuna og fjáraukalagaumræðuna að verið er að þverbrjóta þau lög. Það er ekki verið að klára hér fjárlög í takti við gildandi fjármálastefnu eða fjármálaáætlun. Það kann að vera pólitískt óhentugt fyrir nýjan meiri hluta en það eru þá bara einfaldlega lögin. Þá eru þau bara óhentug.

En það verður líka að horfa til þess að jafnvel í eðlilegum takti þingsins mun sú staða koma upp þegar kosið er að vori að ný ríkisstjórn tekur við með fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem gert er ráð fyrir að gefa góðan tíma að vori til þess að ræða og samþykkja gildi. Og þarf þá væntanlega að leggja fram fyrsta fjárlagafrumvarp sitt í takti við þá fjármálastefnu og þá fjármálaáætlun ef það er yfir höfuð einhver vilji og ætlan til að fylgja lögum um opinber fjármál, sem er ætlað að veita ríkisfjármálunum festu, fyrirsjáanleika og sjálfbærni.

Þetta eru svona grunngildi sem unnið er út frá.

Það voru miklar vonir bundnar við þessa löggjöf. Að þetta myndi einmitt útiloka svona ósiði eins og við erum að upplifa í þessum fjárauka, að það sé algert aðhaldsleysi, algert agaleysi í ríkisfjármálunum og við séum alltaf í þessum taktfasta framúrkeyrslugír þar sem við sjáum að frá árunum 2010, jafnvel í umræðu um að bæta þyrfti aðhald ríkisfjármálanna, að niðurstaða ríkisreiknings er svona 10% hærri en fjárlagafrumvarp sem lagt er fram. Þetta gerist ár eftir ár. Og þetta er að gerast aftur núna. Það er alveg sama framúrkeyrslan núna í fjárauka og hefur verið hefðbundið. Það er alveg sama viðbótin milli frumvarpa frá fyrsta fjárlagafrumvarpi til samþykktra fjárlaga og við megum vænta þess að það verði alveg sama framúrkeyrsla þegar við sjáum svo lokafjárlög og ríkisreikning fyrir árið 2017. Það er enginn vilji til að fara eftir þessu. Ég held að það sé bara staðreyndin. Það hefði verið æskilegt að fjárlaganefnd hefði núna tekið á þessu af miklu meiri festu.

Hér er verið að leggja fram fjárauka upp á 25 milljarða útgjaldaaukningu frá áður samþykktum fjárlögum. Þegar maður horfir á þessa liði er fyrir það fyrsta algerlega ljóst að þegar horft er á ófyrirsjáanleika, óhjákvæmileika eða einskiptiskostnað, þær kríteríur sem settar eru í lögunum, að ekki er að sjá að gripið hafi verið til neinna ráðstafana af hálfu framkvæmdarvaldsins til að reyna að spyrna við fótum. Ekki er að sjá neina yfirferð hjá fjárlaganefnd til hvaða ráðstafana viðkomandi ráðherrar hafi gripið, t.d. með reglugerðarbreytingum eða aðhaldsaðgerðum á öðrum sviðum, til að sporna gegn útgjaldaaukningunni.

Hér ætla ég ekkert að undanskilja sjálfan mig sem starfaði sem ráðherra stóran hluta þessa tímabils. Ég hefði þá gjarnan viljað fá tækifæri til að fara yfir hvað til minnar ábyrgðar heyrði þar.

Að sama skapi segi ég að undir þeim málaflokki sé ég fjölmarga liði sem verið er að bæta í mjög hraustlega hér á lokametrunum sem ég kannast ekki við að varað hafi verið við sérstökum veikleikum í minni tíð sem ráðherra. Ég veit ekki hvað þar er á ferðinni, hvort það sé svo skyndilegt og ófyrirsjáanlegt eða hvort hér sé bara hefðbundinn freistnivandi, að í ljósi góðrar afkomu ríkissjóðs, betri en ráð var fyrir gert, sé verið að hreinsa út ýmsa liði sem er þægilegt að vera laus við einmitt til þess að þurfa þá ekki að hækka útgjöld í fjárlögum næsta árs eða til að skapa sér betra svigrúm.

Það hefur verið helsti lösturinn við fjáraukalagagerðina í gegnum tíðina að þetta er notað mjög frjálslega, ekki endilega af brýnni nauðsyn.

Það er heldur ekki að sjá að möguleikar hafi verið tæmdir til að millifæra innan málaflokka til að nýta þá ónýtt svigrúm annars staðar. Þegar við horfum á fyrstu tvö varúðarþrepin í þessu: a) að reynt sé að spyrna við fótum eða b) að reynt sé að millifæra fjárheimildir milli annarra liða — það verður ekki séð í yfirferð fyrir fjárlaganefndinni að lögð hafi verið mikil vinna í það eða gerðar miklar tilraunir til þess.

Nú átta ég mig alveg á að tíminn er skammur fyrir nýja ríkisstjórn en það breytir því ekki að eftir lögunum þarf að vinna.

Í þriðja lagi kemur síðan umræðan að varasjóðunum. Þar er tvennu til að dreifa, annars vegar varasjóðum málaflokka og hins vegar almennum varasjóði ríkisstjórnar. Hér hefur komið skýrt fram að þessir varasjóðir eru meira og minna ónýttir. Á móti 25 milljarða fjárauka erum við sennilega með á níunda milljarð, af því að það er jú verið í fjáraukanum að færa ónýttar fjárheimildir vegna verðlagsbreytinga og gengisforsendna upp á 1,5 milljarða inn á varasjóðinn, að þá erum við sennilega með varasjóði upp á níunda milljarð, sem eru ónýttir á móti þessum fjárauka upp á 25 milljarða. Og mér er algerlega ómögulegt að skilja af hverju í ósköpunum ekki er byrjað á að tæma þessa varasjóði. Kröfurnar eru nákvæmlega þær sömu þegar kemur að því að uppfylla skilyrðin til fjárauka eða skilyrðin til að nýta varasjóð. Það hlýtur þá að vera mjög eðlilegt fyrsta skref að byrja alla vega á að tæma hann. Þar hefði ég viljað sjá fjárlaganefnd stíga fastar til jarðar og gera einfaldlega breytingu á fjáraukanum með það að markmiði að tæma þessa varasjóði fyrst og lækka þá fjáraukalagafrumvarpið sem því næmi. Þá værum við ekki að tala um 25 milljarða fjáraukalagafrumvarp heldur værum við að tala um einhvers staðar á bilinu 15–16 milljarða, sem væri þó skömminni skárra því að af því væri þá helmingurinn vegna ófyrirséðra vaxtaútgjalda út af fyrirframgreiðslu eða uppgreiðslu á lánum. Það væri töluvert betri áferð á því.

Ég held að það sé mjög brýnt fyrir okkur að læra af þessu og ég held að fyrir fjárlaganefnd á komandi ári verði að kalla eftir miklu skýrari viðmiðum um hvernig eigi að vinna með þessa varasjóði og líka miklu skilvirkara eftirliti með hvernig framkvæmd fjárlaga gengur og hvaða ráðstafana er þá verið að grípa til ef siglt er fram úr.

Mig langar að nefna nokkra sérstaka liði án þess að fara í gegnum fjáraukalagafrumvarpið sérstaklega.

Kirkjan hefur verið nefnd. Hér er verið að bæta 550 milljónum enn og aftur inn í fjárauka vegna skuldbindinga sem liggja fyrir, eru ekki ófyrirséðar, er viðurkennt að liggi með einhverjum hætti á ríkinu og verið að reyna að endursemja um. Ég held reyndar að þessi samningur hljóti að vera einn sá allra lélegasti sem ríkissjóður hefur nokkurn tíma gert. Þetta er 20 (Gripið fram í.) ára samkomulag. Það væri mjög gaman að sjá það samkomulag uppreiknað. Því þarna virðist vera algerlega opinn og óútfylltur tékki inn í framtíðina gagnvart kirkjunni á móti því sem hefði átt að vera nokkuð vel skilgreind verðmæti. Það væri áhugavert að sjá jafnvægið þar á milli í dag, 20 árum eftir að þessi samningur var gerður.

Sérstakur stuðningur til bænda. Þetta er ekkert ófyrirséð. Það er verið að semja um þetta núna í lok árs. Af hverju í ósköpunum er þetta ekki sett á fjárlög? Það er mér algerlega lífsins ómögulegt að skilja. Það myndi væntanlega vera sami greiðsludagur á því til bænda hvort heldur sem væri, þ.e. það væri hægt að gera þetta upp við bændur strax í byrjun næsta árs. Ég ætla ekki að fara út í mikla efnislega umræðu um innihald þessa samkomulags sem við höfum fengið mjög takmarkaða kynningu á. Mér þykir það nú samt benda til þess að þar sé unnið með sömu óskilvirkni og skammsýni í landbúnaðarkerfinu og einkennt hefur það hingað til. Það er engin framtíðarlausn á vanda sauðfjárbænda í þessu, það er bara verið að skella plástri á sár, 700 millj. kr. plástri, án nokkurrar framtíðarsýnar um hvernig það geti styrkt stöðu sauðfjárbænda til einhverrar framtíðar. Ég tek undir með hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni sem talaði hér á undan mér: Við viljum veg landbúnaðar sem mestan og bestan. Íslenskur landbúnaður hefur gríðarlega sterka og góða stöðu til að byggja á en það getur ekki verið á ábyrgð ríkissjóðs að bregðast við í hvert skipti sem verða verðlækkanir á mörkuðum eða söluforsendur ganga ekki alveg eftir. Stuðningurinn hlýtur að þurfa að vera með lengri tíma sýn en það. Og að ríkið eigi að hlaupa undir bagga í hvert skipti sem eitthvað bregður út af, það á ekki við um aðrar atvinnugreinar. Við eigum að vera með mun almennari og markvissari stuðning við landbúnað en hér er að finna.

Annað sem mig langar að tæpa stuttlega á. Í umræðu um bandorm í 3. umr. tilkynnti meiri hlutinn að þau hefðu fallið frá framlengingu bráðabirgðaákvæða í framhaldsskólanum sem gæfu heimildir til gjaldtöku vegna efniskostnaðar og kvöldkennslu. Sem er mjög gott mál og ég held að allir séu sammála. Því fylgdi sú yfirlýsing að þetta væri fjármagnað. Það er hins vegar engin breytingartillaga frá meiri hlutanum um fjármögnun á því, sem er u.þ.b. 300 milljónir. Þegar spurt er eftir þessu skilst mér að svarið sé: Þetta kemur þá bara í fjárauka á næsta ári. Þannig að hér, í umræðu um fjárlög fyrir árið 2018, eru ráðherrar farnir að boða útgjöld í fjárauka vegna ársins 2018. Það eru algerlega forkastanleg vinnubrögð.

Það vill reyndar svo heppilega til að minni hlutinn er með breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið upp á 300 millj. kr. útgjaldaheimild til framhaldsskólans til að mæta einmitt þessum hlut. Það væri kannski eftir öðru að meiri hlutinn tæki þá breytingartillögu og gerði hana að sinni eða styddi hana. Það væri þó alla vega talsvert betri bragur á því en að fella þá breytingartillögu og koma svo með 300 millj. kr. útgjaldaheimild í fjárauka næsta árs. Ég held að það væri, ja, eins og maður segir, ótrúlega kómísk staða ef hún kæmi raunverulega upp. Ég trúi ekki öðru en að minni hlutinn komi þá alla vega einni breytingartillögu hér í gegn.

Það verður ekki annað séð en að í framlagningu þessa fjárauka sé hefðbundin óráðsía og framúrkeyrsla eins og alltaf hefur verið. Það er ekki að sjá neina merkjanlega breytingu á vinnubrögðum. Það verður þá svo að vera.

Ég veit að fyrri ríkisstjórn lagði metnað í að segja: Við þurfum að vinna innan heimildanna, nýta varasjóði til þeirra útgjaldaauka sem hér er að finna. Vissulega eru þættir sem eru mjög stórir hér inni, eins og aukinn kostnaður vegna mun meiri fjölgunar öryrkja en ráð var fyrir gert, mun meiri lyfjakostnaður en ráð var fyrir gert. Tekin var pósitíf ákvörðun um að bæta 1.500 milljónum í fjárframlög vegna almennra íbúða þar sem var ljóst að fjárlagafrumvarp 2017 uppfyllti ekki þær skuldbindingar sem ríkissjóður hafði gengist undir. Tekin var pósitíf ákvörðun um að leggja 1.200 milljónir til viðbótar í samgöngumál. Þetta hefðu allt verið liðir sem hefði verið fullkomlega eðlilegt að taka til umræðu í fjárauka en megnið af þessu eru ýmis útgjöld, stór sem smá, sem réttast hefði verið að færa á móti í varasjóði og lækka þá upphæðir þessa fjárauka sem því næmi.

Ég held að það sé alveg ljóst að ef við ætlum lögum um opinber fjármál að virka sem það stjórntæki, sem það aðhald fyrir framkvæmdarvaldið sem þeim er ætlað að vera, þurfum við að breyta þessum vinnubrögðum verulega. Annars, af því að hér var spurt út í hvaða úrræði stæðu þá til boða, ja, þingið gæti auðvitað bara tekið tékkheftið af framkvæmdarvaldinu. Það væri þá alla vega ein leið til að tryggja að framkvæmdarvaldið ynni innan þeirra fjárheimilda sem þingið veitir því. Það væri kannski eitthvað sem væri vert að skoða ef þetta virkar ekki.