148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðu hans og innlegg. Ég get tekið undir flest af því sem hann sagði, sér í lagi varðandi það stjórntæki sem lög um opinber fjármál eiga að vera og virka sem. Hv. þingmaður sagði að ekki væri vilji til að gera neitt í því að breyta þessu og að sú skoðun væri uppi. Jú, að einhverju marki má hafa þann skilning. En það hefur þó komið fram í umræðunni og í hv. fjárlaganefnd að það er skýr vilji til að breyta verklaginu og vinna eftir því inn í framtíðina.

Hv. þingmaður gekkst við ábyrgð sinni sem starfandi ráðherra félags- og jafnréttismála á þessu ári. Þá kannast hann klárlega við að notkun málaflokka varasjóða hefur ekki komist í gang.